„Ekki hægt að verðleggja fullveldi þjóða“

05.01.2016 - 12:31
Iceland's Foreign Minister Gunnar Bragi Sveinsson addresses the 70th session of the United Nations General Assembly at U.N. headquarters, Friday, Oct. 2, 2015. (AP Photo/Jason DeCrow)
 Mynd: AP  -  FR103966 AP
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir að ekki sé hægt að verðleggja fullveldi þjóða og vísar á bug gagnrýni formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), um áframhaldandi þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Þá segir ráðherra að forsvarsmenn sjávarútvegsins hafi haldið illa á sínum málum í umræðunni.

Utanríkisráðherra sagði skömmu fyrir jól að ákvörðun Evrópusambandsins, um að framlengja viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum um sex mánuði, hafi engin áhrif á afstöðu Íslands. Jens Garðar Helgason, formaður SFS, gagnrýndi yfirlýsingu ráðherrans í gær og sagði hana ótímabæra í ljósi þess að von sé á skýrslu, sem unnin var fyrir samráðshóp stjórnvalda og sjávarútvegsins, um fjárhagsleg áhrif innflutningsbannsins á þjóðarbúið.

Gunnar Bragi vísar gagnrýninni á bug en fagnar gerð skýrslunnar. Skýrslan sé mikilvægt innlegg í umræðuna, en hún komi ekki til með að hafa áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda.

„Þátttaka okkar í þessum þvingunum byggir á því að alþjóðalög og samningar voru þarna brotnir og við byggjum okkar fullveldi og landamæri á því að réttindi séu virt og alþjóðasamningar. Og þá spyr maður sig, hvernig verðleggjum við slíkt? Hvernig verðleggjum við fullveldi, ef við byggjum okkar efnahag meðal annars á samningi um veiðar og að landhelgin sé virt? Er það fimm milljarða virði, tólf eða fimmtán? Ég velti fyrir mér hvernig setjum við verðmiða á það? Ég þekki engan stjórnmálamann, og fáa Íslendinga sem eru tilbúnir til að verðleggja slíkt,“ segir Gunnar Bragi í samtali við fréttastofu.

Segir SFS halda illa á sínum málum

Sjávarútvegurinn áætlar að fjárhagslegt tjón vegna innflutningsbanns Rússa nemi allt að tólf milljörðum króna. Utanríkisráðherra harmar blóðtökuna sem lítil byggðalög verði fyrir vegna aðgerðanna, en hefur ekki áhyggjur af sjávarútvegsfyrirtækjunum sem um ræði, því þau muni spjara sig.

Skiptar skoðanir eru um málið innan ríkisstjórnarflokkanna en Gunnar Bragi segir að engin tillaga hafi komið fram innan ríkisstjórnarinnar um að hætta viðskiptaþvingunum. Þá sakar hann formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um óréttmæta gagnrýni.

„Eins og svo margt, því miður, sem hefur komið frá SFS og þeir halda alltaf illa á sínum málum. Hann segir nú held ég í einhverju viðtali þarna, spyr hvort ég sé hluti af ríkisstjórninni og það er ég en það er hann hins vegar ekki. Og ekki heldur SFS.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV