Ekki hægt að bera saman fólk og vörur

05.03.2016 - 12:36
OLYMPUS DIGITAL CAMERA          Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ
 Mynd: Alþýðusamband Íslands
Gylfi Arnbjörnsson segist í forundran yfir ummælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um búvörusamningana í gær. Ekki sé hægt að bera saman vörur og fólk með þeim hætti sem hann geri. Hann ítrekar að Alþýðusambandið hafi rétt til að koma að búvörusamningunum

Sigmundur Davíð gagnrýndi í fréttum RÚV í gær framgöngu forseta ASÍ í umræðu um búvörusamninginn. Stéttir ættu að standa saman og Bændasamtökin ættu til dæmis ekki að sitja við borðið þegar félög innan ASÍ semja um kaup og kjör.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segist undrandi yfir ummælunum. Bæði bændur og landbúnaðarráðherra hafi viðurkennt að neytendur og þeir félagsmenn ASÍ sem vinni í störfum tengdum landbúnaði hafi hagsmuni af samningunum en hafi verið meinuð aðkoma að þeim. „Og þess vegna er dálítið skrítið að forsætisráðherra hafi framgöngu um að gagnrýna að við vekjum athygli á þessari skrítnu stöðu að fá ekki að fjalla um hagsmuni okkar fólks. Maður er stundum bara í forundran.“

Gylfi gagnrýnir líka samlíkinguna við aðgengi að ódýru vinnuafli. „Ég skil nú ekki alveg hvert forsætisráðherra er að fara. Að líkja fólki við einhverjar vörur, og réttindi og mannréttindi fólks við stöðu einhverrar vöru, þó að það séu íslenskar landbúnaðarvörur, er einhver samlíking sem nær ekki nokkurri átt.“

Gylfi segir erfitt að sitja undir því að frjálsari viðskiptasambönd og mannréttindi fólks séu sett undir sama hatt. „Það verð ég að viðurkenna að ég skil ekki og vil leyfa mér að efast um að forsætisráðherra eigi að stilla þessum málum með þessum hætti upp. En það verður hann síðan að bera ábyrgð á.“

Gylfi segir að hægt sé að mæta hagsmunum bænda betur án þess að fórna hagsmunum neytenda eða starfsmanna í greininni. Réttast sé að bera saman stöðu garðyrkjubænda nú og þegar fyrri stefna réði ríkjum. Þeir hafi farið í meira samkeppnisumhverfi sem hafi komið þeim til góða. „Þannig að þetta snýst ekki um að ráðast að kjörum bænda, þetta snýst um að finna leið sem sameinar hagsmuni fleiri, og það er það sem er kölluð samvinna.“

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV