Ekki fleiri í sömu stöðu og umsjónarmaðurinn

21.04.2017 - 18:29
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Engir fleiri núverandi eða fyrrverandi starfsmenn forsetaembættisins gætu átt inni laun hjá embættinu af sömu ástæðum og fyrrverandi umsjónarmaður á Bessastöðum sem var hlunnfarinn um 7,5 milljóna laun á rúmlega fjögurra ára tímabili. Þetta segir forsetaritari í svari við fyrirspurn fréttastofu.

RÚV greindi frá því í fréttum sínum fyrr í mánuðinum að umsjónarmaður með forsetabústaðnum á Bessastöðum hefði verið hlunnfarinn um 7,5 milljónir í laun á árunum 2010 til 2014. Það var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að ofan á 250 klukkustunda vinnuskyldu sína í mánuði hafi maðurinn í raun verið á bakvakt öll þau fjögur ár og átta mánuði sem hann vann á Bessastöðum, ef frá væru talin stöku vaktafrí og orlof. Hann hafi hins vegar aldrei fengið greitt fyrir að vera á bakvakt og ætti þær greiðslur inni.

Fréttastofa sendi fyrirspurn vegna málsins á Örnólf Thorsson forsetaritara og Árna Sigurjónsson, skrifstofustjóra forsetaembættisins, mánudaginn 10. apríl. Þá fékkst það svar að þeir væru báðir farnir í páskafrí og gætu ekki svarað fyrirspurninni fyrr en að því loknu. Svarið barst svo frá Örnólfi í dag.

Í því segir að að starfsaðstæður umsjónarmanns fasteigna hafi breyst verulega 1. apríl 2015 „þegar embætti ríkislögreglustjóra tók að sinna reglubundinni vöktun á staðnum eins og að hafði verið stefnt um langa hríð“. Þá hafi umræddur umsjónarmaður verið „eini starfsmaður embættisins sem bjó við þær aðstæður sem komu til álita við úrskurð héraðsdóms“.

Manninum voru sem áður segir dæmdar 7,5 milljónir króna úr ríkissjóði, en við þá upphæð leggjast dráttarvextir sem eru umtalsverðir. Heildarupphæðin sem maðurinn getur átt von á er því allt að tvöfalt hærri, samkvæmt heimildum fréttastofu.

 

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV