Ekki færri fæðingar í áratugi

08.01.2016 - 16:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fæðingar á Landsspítalanum og á sjúkrahúsinu á Akureyri hafa ekki verið færri, en á síðasta ári, í áratugi. Fæðingar á þessum tveimur stærstu fæðingarstöðum landsins voru rúmlega fimm hundruð fleiri, árið 2010, heldur en í fyrra.

Frá metárunum 2009 og 2010 hefur fæðingum fækkað á milli ára. Ekki eru komnar lokatölur fyrir fjölda fæðinga á landinu á síðasta ári en á tveimur stærstu fæðingarstöðunum Landsspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri hafa fæðingar ekki verið færri í áratugi. 

 

Ingibjörg Hanna Jónsdóttir yfirljósmóðir á sjúkrahúsinu á Akureyri segir fæðingar ekki hafa verið færri á sjúkrahúsinu frá árinu 1987.

„Þá voru fjöldi fæðinga svipaðar og núna en á þeim tíma þá voru konur að enn þá að fæða á stöðunum í kringum okkur.“

Fæðingardeildir hafa ekki verið starfræktar á Blönduósi, Sauðárkróki og á Húsavík undanfarin ár og talsvert er einnig um að konur af Austurlandi fæði sín börn á Akureyri. Ingibjörg segist ekki vera með neina skýringu á því hvers vegna það voru svona mikið færri fæðingar á síðasta ári en árin á undan.

„Líklega mundi ég halda að þetta væri svona tilviljunakennd dreifing í náttúrunni, en það er samt svo sérstakt að hugsa til þess þegar að þetta lendir á öllu landinu.

Það er auðvitað ómögulegt að segja til um það hversu mörg börn munu fæðast í ár en miðað við þróunina undanfarin ár þá má búast við því að þau verði eitthvað færri heldur en á síðasta ári. Ingibjörg segist þó vonast til að það verði einhver viðsnúningur í ár.

Það virðist nú vera allavegana í bókunum í sónar að það séu þó nokkrar konur að hringja og bóka tíma og ég vona bara og mig langar að beina því til norðlendinga að taka sig nú á og eignast fleiri börn því það er náttúrulega ekkert yndislegra í lífinu en að fjölga börnum.

 

 

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV