Ekki byggt nógu hratt

24.02.2016 - 19:09
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Um þrjú þúsund íbúðir eru nú í byggingu í stærstu sveitarfélögum landsins. Sérfræðingar segja að þetta dugi ekki til og að það sé ávísun á að fasteignaverð hækki enn meira.

Fréttastofa spurði sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um stöðu íbúðabygginga þar. Svör bárust ekki frá Garðabæ.

Í Reykjavík eru 1887 íbúðir í byggingu, 580 eru í byggingu í Kópavogi, 203 í Hafnarfirði, 260 í Mosfellsbæ og 35 á Seltjarnarnesi. Þetta eru samtals hátt í 3 þúsund íbúðir.
Um 3.900 íbúðir eru í skipulagningu í Reykjavík, 2.673 í Kópavogi, 493 í Hafnarfirði, um 200 í Mosfellsbæ og 20 á Seltjarnarnesi. Þetta eru samtals um 7.300 íbúðir.
Á næstu sex mánuðum er gert ráð fyrir 350 nýjum íbúðum í Reykjavík, 125 í Kópavogi og rúmlega 100 í Hafnarfirði. Mosfellsbær og Seltjarnarnes höfðu ekki þessar upplýsinar. Samtals eru þetta tæplega sex hundruð íbúðir í þremur stærstu sveitarfélögum landsins.

„Það er varla nóg til að mæta þeirri eftirspurn sem er í gangi,“ segir Magnús Árni Skúlason hagfræðingur hjá Reykjavik Economics. Ari Skúlason hagfræðingur hjá Landsbankanum tekur undir það. „Það er bara ekki byggt nógu mikið til að anna eftirspurninni sem er miklu meira en framboðið. Þegar svoleiðis ástand verður að eftirspurnin annar ekki framboði gefur það yfirleitt af sér verðhækkanir.

Magnús segir þetta koma mikið niður á ungu fólki. Mér sýnist líka að það vanti íbúðir undir 35 milljónir sem hinn venjulega kaupandi getur ráðið við. Meginhluti viðskiptanna er undir því í raun og veru.

Magnús Árni segir þokkalega margar íbúðir í undirbúningi, en þó þurfi meira. Ari bendir þó á að óljóst sé hversu hröð uppbyggingin verður, til dæmis þar sem þétta á byggð. Það vanti tvö þúsund nýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðið á ári. „Það sem er að gerast núna er svo langt frá því að vera það. Þannig að þörfin heldur bara áfram að vera til og jafnvel að aukast.

Mynd með færslu
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV