Ekki ástæða til að gera annað umhverfismat

03.04.2013 - 12:50
Mynd með færslu
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að svo stöddu ekki ástæðu til að óska eftir nýju mati á umhverfisáhrifum jarðhitavirkjunar í Bjarnarflagi við Mývatn.

Um 6.500 manns hafa skráð sig á vefsíðu Landverndar þar sem þess er krafist að Landsvirkjun stöðvi nú þegar framkvæmdir við fyrirhugaða 45-90 megavatta virkjun í Bjarnarflagi og vinni nýtt mat á umhverfisáhrifum hennar.

Talsmenn náttúruverndarsamtaka hafa bent á að núgildandi umhverfismat fyrir svæðið sé 10 ára gamalt og í því sé ekki fjallað um þætti sem geti haft skaðleg áhrif á lífríki Mývatns. Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar segir þó að ekki standi til að endurmeta umhverfisáhrifin. „Við berum bara virðingu fyrir þessum sjónarmiðum og tökum að sjálfsögðu tillit til þeirra í allri okkar vinnu og erum stöðugt að efla okkar rannsóknarvinnu og vöktun á svæðinu. En það hefur samt ekki að svo stöddu verið talin ástæða til að óska eftir nýju umhverfismati,“ segir Hörður. „En svoleiðis mál eru að sjálfsögðu í stöðugri endurskoðun,“ bætir hann við. 

Hörður segist þó leggja áherslu á að vanda vel til verka ef virkjað verður á svæðinu. Bjarnarflag og Þeistareykir eru í okrunýtingarflokki Rammaáætlunar. Þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna studdu ekki frumvörp á Alþingi um kísilver á Bakka þar sem Bjarnarflagsvirkjun myndi ógna lífríki Mývatns. Hörður segir uppbyggingu á Bakka þó ekki hanga saman við virkjunina. „Það hefur ekki verið tekið nein ákvörðun um hvort svæðið yrði fyrir valið ef til kemur.“