Ekkert rætt við stjórnarandstöðuna

06.03.2014 - 19:24
Mynd með færslu
Ekkert hefur verið rætt við stjórnarandstöðuna um sátt í deilunni um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og ætlar stjórnarandstaðan að taka málið upp við forseta Alþingis á morgun. Formaður Samfylkingarinnar segir að málið sé átakamál sem rætt verði í þaula.

Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins segir málið  í höndum Íslendinga og af hálfu ESB hafi engin skilyrði verið sett fyrir framhaldinu.

Engir þingfundir eru þessa viku vegna nefndarstarfa. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fundað um stöðuna í Evrópusambandsmálinu, en fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna sem fréttastofan hefur rætt við undrast að engir fundir hafi verið haldnir með stjórnarandstöðunni. Hún hafi staðið í þeirri meiningu að nefndarvikan yrði að  nýtt í sáttafundi eftir að tillögu utanríkisráðherra var hleypt á dagskrá.

Formenn þingflokkanna eiga fund með forseta Alþingis á morgun um þingstörfin framundan og á þeim fundi verður málið til umræðu. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í samtali við fréttastofu að þetta væri átakamál sem rætt yrði í þaula.

Nú hafa tæplega 46 þúsund manns skráð sig á undirskriftalistalista þar sem skorað er á þingið að leggja tillöguna til hliðar og efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Það eru nánast 19 prósent atkvæðisbærra manna. Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra segja  að forysta ESB hafi sagt að ekki sé hægt að hafa aðildarviðræðurnar endalaust í lausu lofti og því ekki eftir neinu að bíða með að draga tillöguna til baka.

Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB, segir að sambandið hafi ekki sett Íslendingum skilyrði.

„Ég get bara ítrekað það sem Füle hefur sagt opinberlega, og reyndar að utanríkisráðherra Íslands viðstöddum, þegar hann kom til Brussel þann 13. júní,“ segir Stano.

„Stækkunarstjórinn sagði, og það gildir enn, að það sé á valdi Íslendinga, ríkisstjórnarinnar, Alþingis og þegna landsins að taka ákvörðunina og við höfum ekki sett nein ákveðin tímamörk. Og við höfum tekið skýrt fram að við virðum ákvörðunina og þann tíma sem Íslendingar taka sér. En við höfum líka lagt áherslu á það að það séu hagsmunir beggja að þetta taki ekki ótakmarkaðan tíma.“