Ekkert nýtt komið fram í Móabarðsmáli

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Rannsókn á árásarmálunum í Móabarði í Hafnarfirði í febrúar er enn í gangi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var í tvígang um alvarlegar líkamsárásir á sömu konu á tveimur vikum. Í tilkynningu frá lögreglunni 25. febúrar kom fram að konan væri ekki alvarlega slösuð. 

Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að ekkert nýtt hafi komið fram í rannsókn málsins en vildi ekki tjá sig um gang rannsóknarinnar að öðru leyti.

Lýst hefur verið eftir árásarmanni í fjölmiðlum. Hann er sagður vera um 180 sentímetrar á hæð og fölleitur, hann var dökkklæddur og með svarta húfu og svarta hanska. Maðurinn er talinn vera á aldrinum 35 til 45 ára.