Ekkert gengur með stjórnarmyndun á Spáni

18.01.2016 - 23:17
Erlent · Evrópa · Spánn · Stjórnmál
epa05105004 A handout picture provided by the People's Party (PP) shows acting Spanish Prime Minister, Mariano Rajoy, taking notes on board a train towards Zamora, where he attended a party event, in Madrid, Spain, 16 January 2016.  EPA/TAREK / PP /
 Mynd: EPA  -  EFE /PEOPLE'S PARTY
Filippus Spánarkonungur ætlar í þessari viku að ræða við leiðtoga stjórnmálaflokka landsins í von um að hægt verði að fá þá til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Sósíalistar aftóku í dag að fara í stjórn með Lýðflokknum, sem fékk flest atkvæði í þingkosningunum í síðasta mánuði.

„Nei þýðir nei,“ sagði Pedro Sánchez, leiðtogi Sósíalistaflokksins, í dag þegar hann greindi fréttamönnum í Madríd frá því að hann hefði enn einu sinni hafnað ósk Marianos Rajoys, starfandi forsætisráðherra, um að taka þátt í nýrri ríkisstjórn. Ómögulegt virðist vera að mynda stjórn á Spáni sem hefur meirihluta þingmanna á bak við sig.

Lýðflokkur Rajoys fékk 123 af 350 þingsætum í kosningunum 20. desember. Leiðtogar mið- og hægriflokksins Ciudadanos, annars stóru, nýju flokkanna á þingi, er tilbúinn að fara í stjórn en enn vantar á meirihlutann. Rajoy hefur lýst því yfir að hann vilji mynda öfluga stjórn með tryggum meirihluta með Sósíalistum sem fengu 90 þingmenn kjörna. Pedro Sánchez, leiðtogi þeirra, vill hins vegar mynda vinstristjórn með hinum nýja flokknum, Podemos, og nokkrum smáflokkum á vinstrivængnum. Vandinn er hins vegar sá að Podemos styður að íbúar Katalóníuhéraðs fái að greiða atkvæði um sjálfstæði og því eru sósíalistar mótfallnir.

Mariano Rajoy sagði í dag í viðtali við spænska ríkisútvarpið að hann vonaðist til þess að ná að mynda stjórn eins fljótt og auðið væri. Ástandið væri farið að hafa áhrif á efnahagsmálin. Hann stefnir að því að láta greiða atkvæði á þingi um traust á nýju stjórninni í lok þessa mánaðar eða byrjun þess næsta. Vandinn er hins vegar sá að sú stjórn er ekki í sjónmáli.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV