Ekkert að óttast þrátt fyrir aukinn viðbúnað

11.06.2017 - 20:19
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson  -  RÚV
Ekki er æskilegt að lögregla beri vopn á almannafæri til skemmri eða lengri tíma að mati Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra, en hún treystir ríkislögreglustjóra sem aukið hefur viðbúnað á fjöldasamkomum vegna hryðjuverkaógnar. Hún segir ekkert að óttast þrátt fyrir þennan aukna viðbúnað.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær lögregla hefði á grundvelli nýs almannahættumats Ríkislögreglustjóra aukið viðbúnað sinn á fjöldasamkomum. Þetta væri gert í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bretlandi og víðar undanfarið og að búast mætti við að sjá þessa stað á fleiri stórum viðburðum í sumar, meðal annars sérsveitarmenn vopnaða skammbyssum eins og á Colour Run í gær. Lögregla hefur einnig lokað götum með því að leggja fyrir þær stóreflis trukkum í stað þess að láta duga að nota girðingar, borða eða keilur.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, á sæti í nýstofnuðu Þjóðaröryggisráði og hún sagðist í hádegisfréttum RÚV ætla að taka málið upp á fundi þess á morgun. Hún gagnrýndi að almenningur hefði ekki verið upplýstur fyrir fram um að þetta stæði til.

Hlýt að treysta mati lögreglu 

Fréttastofa spurði Sigríði Andersen dómsmálaráðherra hvað kæmi fram í áhættumati Ríkislögreglustjóra. „Það er bara mat Ríkislögreglustjóra að í kjölfar þessara hryðjuverkaárása í London og jafnvel víðar að það sé full ástæða til að sýna sérstaka árvekni á samkomustöðum þar sem almenningur kemur saman, það er mat lögreglunnar og ég hlýt að treysta þeirra mati á þessu,“ segir hún.

Sigríður ætlar að funda með Ríkislögreglustjóra í fyrramálið fyrir fund Þjóðaröryggisráðsins en segir að þessi aukni viðbúnaður sé ekki til merkis um að fólk hafi nokkuð að óttast.

„Nei, í sjálfu sér held ég að það sé ekki nokkur ástæða til að gera það. En menn verða auðvitað að sýna ákveðna ábyrgð í þessu og meta þetta á hverjum tíma. Það er gott að hafa það í huga líka að með þessari ákvörðun sem menn urðu varir við meðal annars á þessari almenningssamkomu í gær, þá er ekki þar með verið að taka neina ákvörðun til langs tíma endilega.“

Ekki æskilegt en við erum vön þessu frá útlöndum

Sigríður segist ekki vera í stöðu til þess að meta hvort ástæða hefði verið til að láta vita af þessari breytingu fyrir fram.

„Ég sé svo sem í fljótu bragði ekkert sem mælir gegn því að menn séu látnir vita af því en Ríkislögreglustjóri hefur auðvitað gripið áður til sérstaks viðbúnaðar þótt hann sé kannski ekki jafnsýnilegur og þarna var. Ég held að almenningur sé nú að fullu meðvitaður – skyldi ég nú ætla – um að það er í öllum þessum löndum í kringum okkur verið að meta aðstæður frá degi til dags og möguleg viðbrögð eða fyrirbyggjandi aðgerðir.“

Hvernig finnst þér sjálfri að vera á svona samkomu, jafnvel með börnin þín, innan um vopnaða lögreglumenn?
„Ég er nú vön því eins og margir Íslendingar að ferðast erlendis þar sem við sjáum auðvitað vopnaða lögreglumenn, ekki bara sérsveitarmenn, heldur almennt vopnaða lögreglumenn. Auðvitað er það ekki æskilegt til langs tíma, og ekki heldur til skamms tíma, að vera í slíku umhverfi, en maður hlýtur þó að treysta þeim sem með þessi mál höndla og greiningu þeirra.“