„Eins og blaut tuska í andlitið"

15.01.2016 - 22:50
Mynd með færslu
Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar.  Mynd: RÚV
Kolbeinn Gunnarsson, formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði, segir ákvörðun Rio Tinto Alcan að frysta öll laun á þessu ári vera slæm tíðindi.

Kolbeinn segir að kjarasamningar hafi staðið í rúmt ár svo þetta sé eins og blaut tuska í andlitið þar sem talið hefði verið að hægt yrði að landa samningi í janúar. Búið hefði verið að fara í ýmis atriði þar á meðal að hluta í verktakayfirlýsinguna og bjóðast til að koma inn með opnunar ákvæði og annað: „En þegar við sögðum eins og er inni í kjarasamningi okkar að við vildum hafa sambærileg laun fyrir þá aðila sem kæmu inn í þau störf að samt sem áður var það ekki nóg, þeir vildu ekki ganga að því og þar af leiðandi var þessu slitið, viðræðunum síðast".

Aðalforstjóri Rio Tinto hefur tilkynnt að öll laun verði fryst og að engar launahækkanir verði á þessu ári í fyrirtækjum samsteypunnar. Ekki er ljóst hvaða áhrif þessi ákvörðun móðurfélagsins hefur á launakröfu starfsmanna álversins í Straumsvík.

Kjaradeila starfsmanna álversins í Straumsvík við stjórnendur Rio Tinto Alcan  er enn óleyst. Verkfalli var aflýst á síðustu stundu í byrjun desember vegna ótta við að álverinu yrði lokað fyrir fullt og allt. 6. janúar virtist stefna í að sáttasemjari legði fram miðlunartillögu. Það gerðist þó ekki. Nýr fundur hefur verið boðaður í deilunni næstkomandi föstudag.

En það dró til tíðinda á þriðjudaginn þegar Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, sendi bréf til starfsmanna samsteypunnar um allan heim. Þar kemur fram að laun allra starfsmanna verði fryst á þessu ári, allt frá forstjóra og niður úr. Því verði engar launahækkanir árið 2016 nema kveðið sé á um þær í lögum eða þegar búið að semja um þær. Þetta sé gert til að hámarka lausafé fyrirtækisins.

Haft er eftir Walsh að þetta hafi verið mjög erfið ákvörðun. Hún hafi hins vegar verið nauðsynleg í ljósi markaðsaðstæðna. Forsvarsmenn Álversins í Straumsvík vildu ekki veita viðtal vegna málsins í dag.

Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í dag segir hins vegar: Ákvörðun Rio Tinto endurspeglar þær áskoranir sem fyrirtækið stendur frammi fyrir í ljósi mikillar verðlækkunar á mörkuðum. Hvaða áhrif hún hefur á kjaraviðræðurnar verður tíminn að leiða í ljós. ISAL bauð meiri launahækkanir en sambærilegir hópar hafa samið um, þrátt fyrir að dagvinnulaun verkamanna hjá fyrirtækinu væru 26% yfir landsmeðaltali þegar viðræðurnar hófust. Það voru vonbrigði að því tilboði skyldi vera hafnað til þess eins að koma í veg fyrir að ISAL öðlaðist aukinn rétt til verktöku; rétt sem öll önnur fyrirtæki á Íslandi hafa.

En nú er málið komið aftur fyrir byrjunarreit.

„Já, við lögðum fram okkar tilboð 14. desember og þeir líka. Og það kom fram hjá þeim að þetta myndi gilda hjá þeim til áramóta þar sem þeir væru tilbúnir að standa við þessi tilboð sem þeir voru með, en það hefur alla tíð verið þannig að þeir vildu opna á verktöku, það er skilyrði. Þetta voru ekki samningaviðræður heldur var bara mönnum stillt upp við vegg. Það yrði að opna verktakayfirlýsinguna og síðan yrði samið", segir Kolbeinn.

Kolbeinn segir að álverið í Straumsvík sitji við sama borð og önnur fyrirtæki hvað varði verktöku þótt skilningur þess sé annar. Daglega séu þar 50-100 starfsmenn að vinna sem verktakar á svæðinu. Það komi bara aldrei fram. Hann segir að þegar þeir bendi á að verktakyfirlýsingunni hafi ekki verið breytt frá 1972, þá hafi henni síðast verið breytt 2002. Aldrei hafi verið sagt nei við að taka það fólk inn sem vantað hefur inn á álagstímum.

Nú hefur verið rætt um mögulega lokun álversins, auka þessi tíðindi líkurnar á því?

„Maður hefur það oft á tilfinningunni að þeir stefni að því, en eins og við segjum erum við ekki að fara í aðgerðir til að loka fyrirtækinu, heldur fyrst og fremst til að ná kjarasamningum fyrir okkar fólk".

Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV