Eins og að fara í fötunum í sund

20.01.2016 - 15:35
Hópur fólks á Ísafirði hefur skrifað bæjaryfirvöldum opið bréf þar sem þau óska þess að fólk fari nakið í gufubað Sundhallar Ísafjarðar og reglum hennar verði breytt. Í stað þess að fólk sé beðið um að klæðast sundfötum í gufunni eða vefja sig handklæði, þá vill hópurinn að fólk verði beðið um að skilja klæði sín eftir fyrir utan klefann. Nadja Widell, ein í hópnum er finnsk og sænsk. Hún segir að ef hún færi í sundfötum í gufuna þá liði henni eins og væri í sundi í öllum fötunum.

Sturlað samband manns við eigin nekt

Hópurinn færir þau rök fyrir máli sínu að ef að reka á finnskt gufubað, eða sánu, í Sundföll Ísafjarðar þá verði jafnframt að fylgja finnskum hefðum gufubaðsins: „Sánan þykir vera helgur staður, þar fæddu konur börn sín lengi og gera sumar enn – við hreinlæti og hlýju – þar situr maður við, ræðir eilífðarmálin og íhugar lífið, allt það sem úrskeiðis hefur farið og hitt sem ber að þakka.“

Nadja segir að eins og í sundlaugum Íslands þar sem fólk skiptir sér að þeim ferðamönnum sem þvo sér ekki fyrir sundið, þá væri varla hægt að fara í sundfötum í almenningssánu í Finnlandi án þess einhver skipti sér að því og í bréfinu segir: „Látum liggja á milli hluta hversu sturlað samband manns þarf að vera við eigin nekt og nekt samborgara sinna til þess að hann láti bjóða sér sánur í fullum herklæðum.“

Í sánunni er skömmin útlæg

Hópurinn ber sánuna saman við kirkjuna og segir að í: „Helgidómi kirkjunnar mætir maður kannski spariklæddur, en löylynni [hitanum] mætir maður einsog guð skapaði mann, berrassaður á lillanum eða pjöllunni eftir atvikum.“ Í bréfinu segir jafnframt að í sánunni sé skömmin útlæg: „Þar fyrirverður sig enginn frekar en í Aldingarðinum, ekki feitir, mjóir, loðnir, hárlausir, fótalausir, bólugrafnir, sveittir, þurrir eða annars lags. Því líkt og garðurinn er sánan griðastaður og þar eru allir menn helgir. Bréfritarar efast um aukið hreinlæti þess að sitja í gufunni á sundfötum heldur en á berum rassinum og segja að lokum: „Ef það læknast hvorki með víni, tjöru né sánu, þá er það áreiðanlega banvænt.“

Mynd með færslu
Halla Ólafsdóttir
Fréttastofa RÚV