Einn versti dagur vetrarins á slysadeild

11.01.2016 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  RÚV
Tugir hafa leitað á slysadeild Landspítala í dag eftir að hafa dottið illa í hálkunni á höfuðborgarsvæðinu. Fólkið sem leitað hefur á slysadeildina í dag er á öllum aldri og hafa algengustu meiðslin verið úlnliðs- og ökklabrot, upphandleggsbrot og höfuðáverkar.

Læknar á deildinni segja að þetta sé búinn að vera einn versti dagur vetrarins. Mikið álag er á slysadeildinni og margir að bíða eftir að komast í skoðun hjá lækni.

Hálka hefur verið á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga og éljagangurinn það sem af er degi bætir ekki ástandið. Full ástæða er til að benda fólki á að fara varlega.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu höfðu fimm 5 hálkuslys verið tilkynnt til lögreglu um fimm leytið í dag. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV