„Ég var stundum hræddur“

20.01.2016 - 14:39
Haraldur Ólafsson, sem var talinn greindarskertur og vistaður frá tveggja ára aldri á Kópavogshæli í aldarfjórðung er nú að undirbúa smíði á rafknúnu þríhjóli. Heimildarmynd um Harald, sem Landsamtökin Þroskahjálp létu gera, var frumsýnd í dag.

Stundum var ég hræddur segir Haraldur Ólafsson sem í dag fagnar 60 ára afmæli sínu. Það er óhætt að fullyrða að lífshlaup hans hafi verið einstakt og óvenjulegt. Tveggja ára var hann vistaður á Kópavogshælinu þar sem hann átti eftir að dvelja í aldarfjórðung. Móðir hans lést og aðstæður höguðu því þannig að honum var komið fyrir á hælinu. Hann var skilgreindur sem þroskaheftur væntanlega vegna þess að hann er hreyfihamlaður og á erfitt með að tala. Síðar eða löngu seinna kom í ljós að hann er alls ekki greindarskertur.

„Dvölin var stundum erfið og stundum ég líka hræddur. Það var vegna fólks sem var geðveikt. Öskrin voru stundum mikil,“ segir Haraldur.

Það var stundum tekið harkalega á vistmönnum og Haraldur horfði upp á það í uppvexti sínum. Hann segir að stundum hafi vistmenn verið settir í spennitreyju eða mittisól sett á þá. Til 12 ára aldurs var hann vistaður á kvennadeild og síðan dvaldi hann með körlunum. Barnadeild var ekki sett á laggirnar fyrr en 1972 en þá var Haraldur orðinn 16 ára. Það kemur kannski á óvart að hann segir kvennadeildin hafi verið mun erfiðari en karladeildin.

Sé hann fyrir mér sem sálfræðing

Hrefna Haraldsdóttir þroskaþjálfi starfaði á Kópavogshælinu frá 1959 með hléi fram til ársins 1965. Hún útskrifaðist þaðan sem gæslusystir eins og það var kallað en það starf þróaðist yfir í að vera þroskaþjálfi. Hún kynntist því Haraldi þegar hann var að að stíga sín fyrstu spor. Kannski ekki alveg rétt að taka þannig til orða því hann var látinn skríða langt fram eftir aldri eða þangað til að fékk hjálpartæki. Á hælinu fékk hann hvorki þjálfun né kennslu. En hefði líf hans orðið allt öðru vísi ef hann stæði nú í sömu sporum og hann gerði fyrir 58 árum?

„Já, ég held að það sé ekki nokkur vafi. Í fyrsta lagi fékk hann enga menntun. Hann hefði notið þess virkilega að fá góða menntun. Hann er mjög næmur á fólk. Ég gæti séð hann fyrir mér sem góðan sálfræðing hefði hann verið upp á öðrum tíma og ekki alist upp við svona slæm skilyrði fyrstu árin," segir Hrefna.

Hrefna segir að Halli hafi að mestu alið sig sjálfur upp.

„Það gerði hann með hjálp margra góðra manneskja því Halli kallar fram allt það besta í fólki. En þetta umhverfi sem hann ólst upp í var ógnvekjandi fyrir lítið barn. Ég veit að hann var oft mjög hræddur og það er mjög eðlilegt," segir Hrefna.

Hrefna Haraldsdóttir

Hrefna Haraldsdóttir
 

Smíðar nú rafknúið þríhjól

En þó að Haraldur hafi alið sinn aldur í aldarfjórðung átti það fyrir honum að liggja að ganga menntaveginn. Fyrst í Öskjuhlíðarskóla og síðar í Réttarholtsskóla þar sem hann lauk grunnskólanámi. Síðan lá leiðin í Iðnskólann þar sem hann lagði stund á rafvirkjun.

Hann hefur reyndar ekki útskrifast en hefur verið með annan fótinn í Tækniskólanum. Þar á hann hauk í horni Frímann Inga Helgason kennara. Í fyrra smíðaði hann t.d. rúllubaggateljara fyrir bónda úti á landi og nú er hann að undirbúa annað verkefni.

„Nú er ég að undirbúa að smíða rafknúið þríhjól,“ segir Haraldur.

Haraldur tók fyrir löngu bílpróf og ekur um allar trissur. Hann bjó í sambýli um tíma en býr nú í eigin íbúð. Með þessari framför má fylgjast í kvikmyndinni Halli sigurvegari sem sýnd var í Bæjarbíói í dag. Páll Kristinn Pálsson gerði myndina.

Ýmislegt á eftir að koma í ljós

Við sögðum frá því í Speglinum að vistheimilanefnd er nú að vinna að skýrslu um Kópavogshæli sem hugsanlega verður tilbúin í vor. Haraldur býst við að ýmislegt eigi eftir að koma í ljós.

„Það á eftir að koma í ljós hve illa var farið með fólk. Það var ekki mönnum bjóðandi,“ segir Haraldur.

Hrefna samsinnir því að hælið hafi á margan hátt líkst fangelsi. Það hafi verið mjög lokuð stofnun. Talið var best að börn, sem vistuð voru á hælinu, væri ekki í miklu sambandi við foreldra sína eða aðstandendur. Heimsóknartími var einu sinni í viku. Sérstakt leyfi þurfti til að koma á öðrum tímum. Þá var ekki talið æskilegt að vistmenn væru mikið á ferðinni fyrir utan hælið.

Hælið var illa mannað og vistmenn voru ekki teknir neinum vettlingatökum. Hugsað var um nauðþurftir þeirra en þjálfun og kennsla var ekki í boði.

„Það var ekkert hugað að þeim sem voru mest fatlaðir, bæði með hreyfihömlun og þroskahömlun. Sjálfskaði var mikill og fólk var beitt harðræði. Við myndum vonandi aldrei líða þetta,“ segir Hrefna Haraldsdóttir.

 

Mynd með færslu
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi