Eftirlitsstofnanir fylgjast með á Facebook

21.12.2016 - 18:42
Öryggismyndavél.
 Mynd: Dan Shirley  -  RGBStock
Stofnanir sem hafa opinbert eftirlit með einstaklingum hér á landi nýta gögn af Facebook, svo sem skjáskot sem þær fá sent. Þá afla þær slíkra gagna að eigin frumkvæði, til dæmis til þess að fá betri tilfinningu fyrir skjólstæðingum eða fylgjast með ferðum þeirra. Í ákveðnum tilfellum hafa stjórnvöld úrskurðað á grundvelli gagna sem fengin eru af samfélagsmiðlinum.

Þetta sýnir rannsókn sem Sigurður G. Hafstað, lögfræðingur og stjórnsýslufræðingur hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, og Jóhanna Gunnlaugsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, unnu og birtist í nýjasta tölublaði Stjórnmála og stjórnsýslu. 

„Svona gögn hafa verið lögð fram formlega í stjórnsýslumálum og leiða til formlegrar ákvarðanatöku og jafnframt er svona annars konar óformlegri notkun þar sem er ekki byggt á þessum gögnum formlega en þau hafa verið notuð til fyllingar öðrum gögnum.“

Segir Sigurður. 

Fá betri tilfinningu fyrir málinu

Starfsmenn stofnananna hafi kannski einhverjar vísbendingar um að eitthvað sé ekki í lagi og fari á Facebook til að fá betri tilfinningu fyrir málinu. Þar geti verið eitthvað sem ýmist styrkir eða veikir grun þeirra. Fram kom í viðtölum að upplýsingar af Facebook gætu hjálpað eftirlitsaðilum að spyrja skjólstæðinga réttu spurninganna. Þá kom fram að Facebook-upplýsingar hefðu í einhverjum tilvikum gagnast við að afskrifa grunsemdir sem stofnunin hafði eða drepa mál. Einn þátttakandi í rannsókninni orðaði þetta svona:

„Það hefur verið einhver grunur um að ekki væri allt í lagi, svo höfum við farið á Facebook og eftir það höfum við hugsað. Nei, þetta er örugglega allt í lagi.“

Fram kom að sjaldan væri byggt á Facebook-gögnum eingöngu. Þau væru frekar nýtt til þess að styðja við hefðbundnari gögn. 

Réttarsvið sem skiptir sífellt meira máli

Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. 

„Það hafa orðið örar tækniframfarir í þjóðfélaginu og þetta er réttarsvið sem skiptir alltaf meira og meira máli.“

Segir Sigurður. Rannsóknin er eigindleg og því ekki hægt að alhæfa út frá henni en hún veitir vissar vísbendingar. Sigurður og Jóhanna tóku viðtöl við fjóra lögfræðimenntaða fulltrúa jafnmargra eftirlitsstofnana. Allar sinna þær eftirliti eða úrskurðarvinnu á sviðum sem lúta að persónulegri hegðun einstaklinga. Þau könnuðu einnig hvernig vísað var til Facebook-gagna í stjórnvaldsúrskurðum og hvort byggt væri á þeim formlega. 

Gómaður á lokaðri Facebook-síðu

Spegillinn fann nokkur dæmi um úrskurði þar sem Facebook hefur skipt sköpum. Í úrskurðum Úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er stundum vísað til gagna af samfélagsmiðlinum. Maður sem fékk atvinnuleysisbætur hafði verið að bjóðast til þess að skutla fólki gegn greiðslu á lokuðu Facebook-síðunni Skutlarar. Maðurinn sagðist hafa haft lítið upp úr þessu, innan við 60 þúsund krónur. Hann hafi gert þetta til að forða fjölskyldunni frá gjaldþroti. Í úrskurði um málið kom fram að maðurinn hefði átt að greina Vinnumálastofnun frá því að hann tæki með þessum hætti þátt á vinnumarkaði, jafnvel þó að þátttakan væri ólögleg. Hann missti bæturnar og þarf að vinna á innlendum markaði í ár til að öðlast bótarétt á ný. Þá var honum gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi haft tekjur af skutlstarfsemi með 15% álagi.

„Á fullu að taka niður pantanir“

Kona sem auglýsti þjónustu á Facebook og sagðist vera á fullu að taka niður pantanir missti sömuleiðis bótarétt og þurfti að endurgreiða ofgreiddar bætur með álagi, tæpa milljón. Konan sagði að Facebook-síðan hennar væri ákveðin ferilskrá. Hún hafi með því að auglýsa þar viljað koma sér á framfæri. Þá sagðist hún afar litlar tekjur hafa haft af starfseminni. 

Hélt tónleika og gaf út plötu

Enn eitt dæmið tekur til manns sem var í hljómsveit, kom fram á tónleikum með henni og gaf út hljómplötu á meðan hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Í þeim úrskurði er bæði vísað til frétta sem birtust á netmiðlum og til upplýsinga af Facebook-síðu hljómsveitarinnar. Að auki er vísað til þess að maðurinn var skráður stjórnarmeðlimur í félagi sem stofnað var í kringum hljómsveitina. Í úrskurðinum kom fram að honum hafi láðst að greina Vinnumálastofnun frá högum sínum og þar með brotið gegn upplýsingaskyldu sinni gagnvart stofnuninni. Við því liggi viðurlög hvort sem viðkomandi hafi þegið laun eður ei. 

Nálgast upplýsingar óformlega á eigin aðgangi

Það er misjafnt hvernig starfsmenn eftirlitsstofnana nálgast upplýsingar á Facebook en svo virðist sem þeir geri það oft með óformlegum hætti á eigin Facebook-aðgangi. Sigurður segist hafa það á tilfinningunni að það sé mjög einstaklingsbundið hvernig Facebook er beitt, hver og einn starfsmaður hafi sinn háttinn á. Dæmi eru um að starfsmenn stofnunar hafi búið til sérstakan sameiginlegan Facebook-aðgang til að sinna þessu eftirliti. Það hversu mikil áhrif eftirgrennslan á Facebook-hefur á framgang mála og úrskurði er óljóst. 

„Á samfélagsmiðlum koma upp alls konar upplýsingar um lögbrot sem varða viðkomandi eftirlitsstofnun. Á grundvelli þeirra aflar eftirlitsstofnunin sterkari gagna, sem staðfesta eða véfengja þennan fyrirliggjandi grun. þau rata svo á endanum í formlega úrskurðinn. Þá getur maður spurt sig hvaða áhrif hin vinnslan hafði þá fyrir úrlausn málsins því sannarlega átti sér stað óformleg notkun á þessum gögnum.“

Eftirlitsstofnanir gætu nýtt Facebook í auknum mæli

Tilkoma Facebook hefur haft áhrif á hugmyndir manna um mörk opinberra upplýsinga og einkalífs. Facebook er í raun hafsjór af persónuupplýsingum, viðskiptamódel fyrirtækisins byggir á öflun og sölu slíkra upplýsinga. Í rannsókn þeirra Sigurðar og Jóhönnu kemur fram að ljóst sé að möguleg notkun samfélagsmiðilsins við opinbert eftirlit sé mikil. Fram kemur að friðhelgi einkalífs sé talin til grundvallarréttinda í lýðræðisþjóðfélagi. Slík friðhelgi geti þó aldrei verið takmarkalaus og örar tækniframfarir á sviði upplýsingatækni hafi óumflýjanlega áhrif á möguleika til eftirlits og gagnasöfnunar. Það verði ekki hjá því komist að skoða hugtök á borð við einkalíf og einkalífsvernd í ljósi upplýsingasamfélags 21. aldarinnar. Þá segir að ekki sé útilokað að íslensk stjórnvöld eigi þess kost að nýta samfélagsmiðla enn frekar en nú er gert við opinbert eftirlit, innan marka gildandi laga. Þar vegist þó á andstæð sjónarmið um hagkvæma og skilvirka stjórnsýslu annars vegar og persónuvernd og friðhelgi einkalífs hins vegar. Til þess að hægt sé að komast að niðurstöðu um hvort hægt sé að nýta samfélagsmiðla enn frekar þurfi fyrst að fara fram greining á framkvæmd og umfangi eftirltisins. 

Hvað er opinber vettvangur?

Rannsóknin tók ekki nema að litlu leyti til þess hvernig þetta formlega og óformlega eftirlit samræmist gildandi lögum. Í henni komu ekki fram neinar vísbendingar um að vinnslan bryti í bága við persónuverndarlög eða stangaðist á við meginreglur stjórnsýslulaga. Sigurður segir að oft sé fyllilega eðlilegt að upplýsingar sem birtar eru á Facebook séu grundvöllur stjórnvaldsákvarðana. Þetta rafræna eftirlit sem eigi sér stað á samfélagsmiðlum geti þó fallið undir persónuverndarlög. Stjórnvöldum er heimilt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að vinna með persónuupplýsingar sem fólk hefur sjálft opinberað. 

„Það er kannski áhugavert að skoða þetta í ljósi þeirrar umræðu hvort þessar upplýsingar teljist opinberar eða ekki. “

Segir Sigurður. Til dæmis mætti velta fyrir sér hvort gera ætti greinarmun á ummælum sem birt eru á opinni Facebook-síðu eða ummælum sem látin eru falla í lokuðum Facebook-hópi. Þá gæti hugsanlega skipt máli hvernig upplýsinga er aflað, hvort starfsmaður aflar þeirra á eigin aðgangi, til dæmis á grundvelli sameiginlegra tenginga sem starfsmaður hefur umfram stofnunina. 

Allt sem birt er á Facebook opinbert

Það hversu langt hver stofnun má ganga í upplýsingaöflun veltur á þeim eftirlitsheimildum sem hún  hefur. Þá eru stjórnvöld  bundin af persónuverndarlögum og þurfa að hafa heimildir fyrir allri vinnslu persónuupplýsinga. Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að hugsanlega gæti þurft að skerpa á vinnulagi um hvernig upplýsingar sem birtast á Facebook séu notaðar, það sé þó ekkert víst. Almennt megi líta svo á að allt sem fólk birtir á Facebook, hvort sem það er á eigin síðu eða í lokuðum hópi, teljist opinber gögn sem stjórnvöld geti nýtt sér, í raun óháð því hversu margir eru í hópnum. Það hafi alla vega ekki verið skilgreind nein mörk. 

„Fólk er þarna í raun sjálft að ákveða að birta bæði viðkvæmar persónuupplýsingar og aðrar persónuupplýsingar og eðli málsins samkvæmt er hægt að vinna með opinberar upplýsingar.“

Sigurður segir að það gæti verið áhugavert að rannsaka efnið út frá lögfræðilegu sjónarhorni, kanna hvenær stjórnvöldum er heimilt að afla gagna á Facebook og sömuleiðis sönnunarvægi þeirra í opinberri stjórnsýslu, hversu trúverðug þau séu og hversu æskilegt sé að byggja á þeim. Hann segir þátttakendur í rannsókninni svartsýna á að hægt sé að nýta upplýsingar af samfélagsmiðlum í meiri mæli en þegar er gert. Sumir efist um trúverðugleika gagnanna. Þá séu sumir óvissir um að hvaða leyti þeim sé heimilt að byggja á þeim með formlegum hætti. 

Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi