Efast um að Vaðlaheiðargöng standi undir sér

08.04.2017 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjármálaráherra telur að kostnaður við Vaðlaheiðargöng hafi verið vanmetinn frá upphafi. Hann efast um að göngin komi til með að bera sig en vill klára þau því ókláruð skili þau engum tekjum. 

 

Lán allt að 4,7 milljörðum 

Í fréttum í febrúar var greint frá því að 3,2 milljarða vantaði til að ljúka við Vaðlaheiðargöng. Ríkisstjórnin samþykkti svo í gær að veita framkvæmdinni lán sem nemur 4,7 milljörðum. Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, segir að sú upphæð byggi á nýju kostnaðarmati, ekki verði lánað fyrir meiru en raunverulegum útgjöldum og að upphæðin verði ekki hærri en 4,7 milljarðar.  En er trygging fyrir því að það sé nóg? „Það er auðvitað engin trygging fyrir því, það hefur svosem sýnt sig.  Þarna hefur ýmislegt komið uppá í sambandi við þessi göng sem hefur valdið því að kostnaðurinn hefur farið langt framúr því sem menn héldu upprunalega og líklegast hefur líklega upprunaleg áætlun verið of lág jafnvel þótt ekkert hefði komið uppá,“ segir Benedikt.

Efast um að göngin beri sig

Á ríkistjórnarfundinum í gær var jafnframt ákveðið að rannsaka hvers vegna framkvæmdin hefur farið svo langt fram úr kostnaðaráætlun, eða um 44 prósent. Benedikt segir að niðurstaða slíkrar rannsóknar breyti þó engu um gerð ganganna. Þá sé reiknað með því að þessir 4,7 milljarðar fáist til baka með gjaldtöku: „Ef við myndum hætta núna þá fengjum við engar tekjur og stæðum bara uppi með tapið en það virðist vera þannig eða mjög vafasamt hvort þessi göng muni bera sig miðað við raunveruleikann.“

Þarf lagabreytingu

Til að veita lánið þarf að breyta lögum. Benedikt telur að frumvarp um viðbótarlán njóti stuðnings í þinginu, þingmenn hafi skilning á því að ljúka þurfi verkinu. „Það er vandmeðfarið að fara í framkvæmd af þessu tagi þar sem hún er annarsvegar sett fram sem einkaframkvæmd og svo er ríkið látið taka ábyrgð á verkinu og lána til þess. Ég held að þessi vinnubrögð verði ekki endurtekin í framtíðinni. Hann bendir þó á að auðvitað sé það ekki lögmál að svo illa fari og bendir á Hvalfjarðargöng sem hafi gengið mjög vel.“