Ebóla drepur enn þótt faraldur sé að baki

15.01.2016 - 03:28
epa04716584 Dr. Matshidiso Rebecca Moeti (C), World Health Organization (WHO) Regional Director for Africa, and Bernice Dahn (C-R), Liberian Health Minister, listen to briefings at the Redemption Hospital, Newkru Town, Monrovia, Liberia, 22 April 2015.
Dr. Matshidiso Rebecca Moeti, yfirmaður Afríkudeildar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (m), og Bernice Dahn, heilbrigðisráðherra Líberíu, á stöðufundi um ebólufaraldurinn, sem formlega var sagður að baki í gær, fimmtudag.  Mynd: EPA
Aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku væri afstaðinn bárust tíðindi af dauðsfalli í Sierra Leone af völdum ebólu. Fréttum breska ríkisútvarpsins, BBC, og fréttaveitunnar AFP, ber þó ekki saman um hver lést og hvenær.

Á vef BBC er haft eftir talsmanni heilbrigðisráðuneytisins í Sierra Leone að rannsóknir breskra vísindamanna hafi leitt í ljós að drengur í Tonkolili-sýslu í norðurhluta landsins hafi látist af völdum ebólu, en ekki liggi fyrir nákvæmlega hvenær andlát hans bar að höndum.

Í frétt AFP er haft eftir öðrum háttsettum embættismanni í heilbrigðisráðuneytinu að ung háskólastúdína í þorpinu Bamoi Luma í Kambia-héraði hafi veikst og dáið skömmu síðar, og að rannsóknir sýni að ebóla hafi verið dánarorsökin. Hann hefur boðað ítarlegri fréttir af málinu í dag, föstudag, og segir að frekari rannsóknir verði gerðar.

Yfir 11.300 manns hafa látist í þremur löndum Vestur-Afríku síðan faraldurinn braust út fyrir tveimur árum. Flestir dóu í Líberíu, ríflega 4.800, tæplega 4.000 í Sierra Leone og ríflega 2.500 í Gíneu, auk þess sem vitað er um átta tilfelli í Nígeríu. Um leið og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að faraldurinn væri að baki var sá varnagli sleginn, að einstök tilfelli gætu átt eftir að koma upp samt sem áður.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV