Dýragarðseigandi í Gaza selur dýrin sín

08.03.2016 - 04:15
Erlent · Asía · Dýralíf
epa03956963 A male (R) and a female lion (L) lie in the sand at a zoo after the female gave birth to two cubs two days earlier in Beit Lahiya town in the northern Gaza strip on 19 November 2013. The cubs' mother and father were smuggled into Gaza
 Mynd: EPA
Eigandi dýragarðs á Gaza-ströndinni hefur ákveðið að selja þau dýr sem eru enn í garðinum til þess að bjarga lífi þeirra. Aðeins fimmtán dýr eru eftir í garðinum og segist eigandinn ekki lengur hafa efni á því að fæða þau.

Dýragarðurinn, sem er í Khan Younis, sunnarlega á Gaza-ströndinni, iðaði áður af lífi dýra og manna. Fjölskyldur og skólahópar komu til þess að virða fyrir sér dýrin. 

Eftir stríðsátökin á milli Palestínu og Ísraels sumarið 2014 hefur honum reynst erfitt að afla dýrunum nægrar fæðu. Síðan þá hafa um 200 þeirra drepist úr hungri. Eftir lifa í dýragarðinum 15 skepnur. Auk þeirra eru önnur 15 dýr sem eigandinn lét stoppa upp og hefur til sýnis.

Fréttastofa Reuters ræddi við eigandann sem segist verða að selja þau til þess að þau geti lifað af. Meðal dýranna sem eru eftir er tígrisdýr. Þegar Reuters talaði við eigandann var tígrisdýrið glorsoltið, enda ekki búið að éta í fjóra daga. Hann býst við því að fá andvirði um þriggja milljóna króna fyrir tígrisdýrið. Meðal annarra dýra til sölu eru strútur, skjaldbaka og pelíkani.

Breska dagblaðið The Guardian heimsótti dýragarðinn sumarið 2012. Þá hafði eigandinn þegar gripið til þess að stoppa upp ljón og tígrisdýr sem hann sagði Ísraelsher hafa drepið.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV