Drullusvað eftir ferðamenn - myndir

Mynd með færslu
Til tals hefur komið að takmarka umferð um Reykjadal í Ölfusi, rétt ofan við Hveragerði, segir Sigurður Jónsson skipulags- og byggingarfulltrúi Ölfuss. Stígurinn er sumstaðar eitt drulluflag eftir gangandi, ríðandi og hjólandi ferðamenn.

Gönguleiðin í Reykjadal er bæði fögur og þægileg, aðeins á fótinn í fyrstu en það er vel þess virði því inni í dalnum er hægt að lauga sig í volgri Hengladalsánni. Þetta nýta sér margir, svo margir að víða er göngustígurinn útvaðinn, orðinn eitt allsherjar svað svo göngumenn sökkva í drullu upp að ökkla.

Talið er að 20-30 þúsund manns heimsæki Reykjadal á hverju ári.

Talið er að fyrir fimm árum hafi 6-8.000 þúsund manns komið í dalinn. Nú er talið að 20-30 þúsund manns fari þessa leið á ári, auk hjólreiða- og hestamanna. Sigurður Jónsson skipulags- og byggingarfulltrúi í sveitarfélaginu Ölfusi segir að hross troði svæðið meira niður en menn. Erfitt sé að ráða við átroðninginn nema með því að stjórna umferð um dalinn. Það hafi verið rætt að loka dalnum á ákveðnum tímum. Á veturna geti hann verið opinn, en þegar taki að hlána væri hann lokaður og í rigningartíð lokaður hrossum. 

Það er betra að vera í vatnsheldum skóm þegar gengið er inn í Reykjadal.

Það er erfitt að koma efnvið til úrbóta og tækjum í dalinn og þyrlu þarf til. Búið er að lagfæra fyrsta spölinn og það á að laga göngustíga frekar í sumar og bæta aðstöðu fyrir þá sem vilja lauga sig í ánni.


Fólk tínir af sér spjarirnar við ána og allvíða má sjá nærklæðnað, sokka og sundföt sem gleymst hafa.

Sigurður segir að laga eigi svæðið við vaðið þar sem foraðið er mest. Þá þurfi sennilega að steypa hellu yfir göngustíginn þar sem hverir séu undir. Þannig sé hægt að tryggja að ferðamenn fari ekki ofan í hverina.  Hveragerðisbær er einnig með deiliskipulag við upphaf gönguleiðarinnar út úr bænum í vinnslu. Þar er gert ráð fyrir tjaldsvæði fyrir göngutjöld, bílastæði og þjónustuhúsi.

Það er ekki fagurt um að litast við vaðið. 

 

ragnhildur.thorlacius@ruv.is