Dróni hefði getað valdið flugslysi

07.01.2017 - 19:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Litlu munaði að dróni flygi á þyrlu þegar hún flaug yfir Reykjavíkurtjörn í dag. Flugmaðurinn segir að afleiðingarnar hefðu orðið alvarlegar, þyrlan hefði hrapað. Fimm farþegar voru um borð í þyrlunni.

 

Gísli Gíslason, flugmaður hjá Norðurflugi, var að fljúga inn til lendingar rétt fyrir tvö í dag. Þegar hann fór yfir ráðhúsið og Tjörnina flaug dróni fyrir hann og yfir í nokkurra metra fjarlægð.

„Það er ekki að spyrja að leikslokum hefði hann farið í þyrluna hvort sem hann hefði farið í framrúðuna eða í tail-róterinn,“ segir Gísli. Dróninn hafi verið í nokkurra metra fjarlægð. „Ég sé merkið á drónanum, þetta gerist mjög hratt. Ég sé merkið, ég sá að þetta var hvítur Phantom dróni eins og er svo algengur orðið. Ekki það að ég sé á móti drónum; ég elska dróna en bara mig langar ekki að hitta einn.“

Fimm farþegar voru í þyrlunni. Dróninn hefði getað farið í framrúðuna, skrúfublöðin eða stélskrúfuna og þá hefði verið erfitt að stýra vélinni til lendingar. „Og eins ef þetta hefði verið farþegavél. Það eru bara nokkrir daga síðan dróni hitti 747 á nefið og það er bara alveg í rúst.“
 
Gísli segir að flugturninn hafi sett allt í gang og talað við lögregluna sem rannsakar málið. „Turninn lætur aðra vita í nágrenninu. Ég get ekki trúað að nokkur Íslendingur sé að fljúga þarna, þeir vita að þetta bannað.“

Drónar eiga að vera þannig útbúnir að þeir geti ekki flogið nálægt flugvöllum enda er það stranglega bannað. Reglur um drónaflug má finna á síðu Samgöngustofu. Hægt er að fá leyfi til að fljúga þeim og Gísli hvetur drónaeigendur til að gera það.
  
„Þá er bara öðrum flugvélum bara beint aðrar leiðir eins og ef við hefðum vitað af þessum dróna þá hefðum við bara komið aðrar leiðir inn,“ segir Gísli. 

Hefði þetta getað orðið til þess að þið hefðuð hrapað? „Algerlega, það þarf mjög lítið,“ svarar Gísli. 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV