Dregur úr veðurofsanum um hádegi

16.02.2016 - 07:12
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Suðvestan ofsaveður verður fram undir klukkan níu til tíu á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi, en það lægir síðan talsvert. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar gerir ráð fyrir að áfram verði þó 15 til 20 metrar á sekúndu um landið vestanvert og við taka nokkuð dimm él suðvestan- og vestanlands.

Heit skil fóru yfir landið í gær og í gærkvöldi var suðaustan rok og ofsaveður á austanverðu landinu með talsvert mikilli rigningu, einkum suðaustanlands. Meðalvindurinn fór hæst í 50 metra á sekúndu á Gagnheiði og hviðan á Vatnsskarði Eystra fór í 68 metra á sekúndu. 

Fljótlega eftir miðnætti fylgdu köld skil í kjölfarið og snerist þá vindurinn
í suðvestlæga átt og dró úr styrknum fyrir austan en bætti í hann Norðan- og
Vestanlands og fór vindurinn meðal annars yfir 32 metra á sekúndu á Holtavörðuheiði. Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands um veður í dag og í kvöld kemur fram að þessi mikli meðalvindur haldi áfram Norðan- og Norðvestantil fram eftir morgni, jafnvel yfir 30 metra á sekúndu og má búast við snörpum hviðum á þessum slóðum, einkum staðbundið í Skagafirði og Eyjafirði.

Um hádegi dregur síðan hratt úr veðurofsanum. 

Það hefur kólnað jafnt og þétt í nótt og er úrkoman nú að mestu leyti él
eða snjókoma sunnan- og vestantil og bætir heldur í ákefðina í kvöld og nótt.

Á morgun dregur enn frekar úr vindi með áframhaldandi éljagangi en
þurrt fyrir austan. 

Færð á vegum 

Það eru hálkublettir og éljagangur á Reykjanesbraut og mjög víða á Reykjanesi.  Hálka er á Sandskeiði og Hellisheiði og hálka eða hálkublettir á vegum á Suðurlandi.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir og snjóþekja á Snæfellsnesi.  Ófært er á Holtavörðuheiði og Fróðárheiði. Verið er að kanna færð á Bröttubrekku og koma nánari upplýsingar fljótlega.
 
Slæmt ferðaveður er víða á Vestfjörðum og eru flestir fjallvegir enn ófærir en þó er orðið fært yfir Gemlufallsheiði en þar er mjög hvasst og blint.

Í Norðurlandi er hálka á flestum vegum og mjög hvasst. Ófært er á Öxnadalsheiði og á Mývatnsöræfum. Flughálka er í Þistilfirði og við Bakkaflóa.

Hálka er á flestum leiðum á Austurlandi en þæfingsfærð í Oddskarði. Enn er ófært á Fjarðarheiði en unnið að hreinsun. Hált er á köflum með suðausturströndinni.