Dregur úr gosvirkni

Flokkar: Innlent
Mynd: Getty Images


  • Prenta
  • Senda frétt

Jarðvísindamenn hyggjast leggja af stað áleiðis á gostöðvarnar á snjóbílum eftir hádegi til mælinga og athugana.

Eldgosið í Grímsvötnum er stöðugt, en hefur minnkað frá því í gær. Gosmökkurinn nær nú í fjögurra til fimm kílómetra hæð og gígurinn spýr um hundrað tonnum af gosefnum út í andrúmsloftið á hverri sekúndu.

Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans leiðir hóp vísindamanna sem ætlar að freista þess að komast að eldstöðvunum í Grímsvötnum. Hópurinn hyggst leggja á Vatnajökul úr Jöklaseli við Skálafellsjökul upp úr hádegi á tveimur snjóbílum og gerir ráð fyrir að komast að eldstöðvunum í nótt ef veður leyfir.

 Þar mun hópurinn taka sýni, mæla þykkt jökulsins og kanna gosstöðvarnar; meðal annars hvernig gígurinn byggist upp. Vísindamennirnir búast við að snúa aftur til byggða á fimmtudaginn. Til stendur að flugvél Landhelgisgæslunnar, Sif, muni fljúga yfir gosstöðvarnar með jarðvísindamenn í dag til að taka myndir og safna gögnum.

Gunnar Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofunni segir gosið stöðugt, en hafi minnkað frá því í gær. „Gosóróinn sem við mælum á skjálftamælum, sérstaklega á Grímsfjalli, hefur verið að meðaltali nokkuð stöðugur frá því um miðjan dag í gær, en inn á milli hafa komið kviður. En frá miðjum degi í gær hefur hann verið nokkuð stöðugur, en ívíð minni heldur en sólarhringinn þar á undan,“ segir Gunnar.

 Gunnar segir gosið stöðugt, engir jarðskjálftar hafi mælst í og við eldstöðina, sem geti bent til að kvika sé ekki að bætast í kvikuhólfið. Þá hafi engar eldingar mælst yfir eldstöðinni frá því um miðjan dag í gær. Veðurstofan gerir ráð fyrir áframhaldandi norðanátt á svæðinu en að smám saman muni draga úr vindi. Á morgun er búist við breytilegri átt og hægari vindi og jafnvel úrkomu. Veðurstofan gerir því ráð fyrir að aska muni falla á svipuðu svæði í dag og verið hefur undanfarna daga.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á spádeild segir að dreifingin heftist ekki nema hreinlega rigni ofan í hana. „Það hefur snjóað upp á jökli, en um leið og hlýnar aðeins þornar á því og skefur af jöklinum. En við lærðum það af Eyjafjallajökulsgosinu að það eina sem heftir öskuna er almennileg rigning, og þó við séum að sjá smá úrkomu á morgun erum við ekki að sjá neina alvöru rigningu eins og stundum hefur nú verið þarna á suðausturlandinu sem er akkúrat það sem við þurfum til að hefta þetta öskufok,“ segir Elín.

 

 

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku