Dönsk yfirvöld vara Tyrki við afskiptum

20.03.2017 - 18:46
Mynd með færslu
 Mynd: DR
Danska utanríkisráðuneytið hefur varað embættismenn í tyrkneska sendiráðinu í Kaupmannahöfn að afskipti af dönskum ríkisborgurum af tyrkneskum uppruna verði ekki liðin. Þetta kom í kjölfar umfjöllunar danskra fjölmiðla um helgina um að nokkrir Danir sem tengjast Tyrklandi hefðu kvartað yfir því að hafa fengið símtöl og skilaboð um að nöfn þeirra yrðu send til tyrkneskra yfirvalda, vegna skoðana sem þetta fólk hafði látið uppi um tyrknesk stjórnvöld.

Danska dagblaðið Berlinske sagði frá því um helgina að nokkrir Danir af tyrkneskum uppruna hefðu sagt frá því að hafa verið sökuð um landráð og sett á sérstakan lista, vegna skoðana þeirra á stjórnmálaástandinu í Tyrklandi. Grunnskólakennari að nafni Mustafa Gezen sagði við blaðamann Berlinske að ókunnur maður hefði hringt í hann í kjölfar þess að Gezen kom fram í sjónvarpinu og gagnrýndi Erdogan; honum hefði verið sagt að upptakan yrði send til tyrkneska sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Lars Aslan Rasmussen, danskur þingmaður af tyrkneskum uppruna, sagði við Berlinske að hann hefði fengið Facebook skilaboð og símtöl þar sem honum var sagt að nafn hans hefði verið sent tyrkneskum yfirvöldum. 

Samkvæmt frétt AFP í dag, og að því er fram kemur í frétt Dansk Radio, hafnaði embættismaður tyrkneska sendiráðsins því að verið væri að safna upplýsingum um dani af tyrkneskum uppruna sem væru gagnrýnir á stjórnvöld í Tyrklandi; hins vegar gæti fólk hringt í sendiráðið ef það hefði upplýsingar um athæfi sem tengdist hryðjuverkum Í yfirlýsingu sem danska utanríkisráðuneytið sendi frá sér í dag kemur fram að dönsk yfirvöld hefðu tekið þessa fjölmiðlaumfjöllun mjög alvarlega; litið væri á söfnun og dreifing upplýsinga um danska borgara til erlendra ríkisstjórna sem refsivert athæfi og sömuleiðis tilraunir til að fá fólk til að safna þessum upplýsingum. Danski utanríkisráðherrann, Anders Samuelsen, hnykkti svo á þessum skilaboðum í tísti á Twitter í dag og sagðist myndu fylgjast grannt með málinu.

 

Forsætisráðherra Tyrklands, Binali Yildirim, var væntanlegur í opinbera heimsókn til Danmerkur í þessu mánuði. Fyrir rúmri viku sendi forsætisráðherra Danmerkur, Lars Lökke Rasmussen, hins vegar þau skilaboð til Yildirim að réttast væri að fresta þessari heimsókn, vegna endurtekinna harðra ummæla stjórnvalda í Ankara gagnvart Hollendingum.