Dóni sektaður fyrir að ropa í Vín

23.02.2016 - 06:21
epa00911643 EURO 2008 HOST CITIES FEATURE PACKAGE / VIENNA
Prater almenningsgarðurinn.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Lögregla á bökkum Dónár hefur litla þolinmæði fyrir dónaskap samborgara sinna. Því fékk karlmaður sem nýlega hafði gætt sér á dýrindis kebab í vinsælum almenningsgarði að kenna á.

Maðurinn hlaut nærri tíu þúsund króna sekt fyrir ósæmilega hegðun á almannafæri þegar hann ropaði hátt og snjallt eftir máltíðina. Sjálfur kennir hann því um að of mikið hafi verið af lauk á kebabnum.

Edin Mehic vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar bankað var í öxlina á honum eftir ropann. Hann birtir mynd á Facebook-síðu sinni af sektarmiða sem hann fékk.

 

Ich möchte euch eine Geschichte erzählen. Sie heißt: "Mein Tag am Wiener Praterstern"Ein Ort vieler kleiner und...

Posted by Edin Mehic on 18. febrúar 2016

Hann segist hafa átt langt samtal við lögreglumanninn sem sektaði hann og spurt hann hvers vegna hann væri ekki að ná í skottið á alvöru glæpamönnum. Það hjálpaði ekki til að hans sögn.

Vefsíða breska dagblaðsins Guardian hermir að talsmaður lögreglunnar hafi staðfest sekt Mehic fyrir ropann. Samkvæmt heimildum Guardian ætlar Mehic að áfrýja sektinni.

Aðgerðasinnar hafa ákveðið að láta málið ekki kyrrt liggja. 118 hafa boðað komu sína nærri vettvangi glæpsins í Prater-almenningsgarðinum á laugardag. Þar ætla þeir að ropa í kór.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV