Dómur yfir Mirjam mildaður í átta ár

04.02.2016 - 15:04
Hæstiréttur Íslands.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Hæstiréttur mildaði í dag dóm yfir hinni hollensku Mirjam Foekje van Twuijver úr 11 árum í 8 ár. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu var sá þyngsti í smyglmáli hér á landi frá upphafi. Einu sinni áður hafði einstaklingur hlotið 11 ára dóm í héraði sem Hæstiréttur mildaði í tíu ár.

Mirjam var í október dæmt í 11 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir smygl á tæplega tuttugu kílóum af fíkniefnum til landsins á föstudaginn langa. Dómurinn vakti mikla athygli þar sem Mirjam var sakfelld sem burðardýr. Hámarks refsing er 12 ára fangelsi.

Atli Freyr Fjölnisson hlaut einnig í fimm ára fangelsi í héraði en Hæstirétur mildaði refsingu hans í fjögur ár. Atli hlaut dóm fyrir að taka á móti efnunum og koma þeim áfram til annarra. 

Konan var handtekin á Keflavíkurflugvelli ásamt sautján ára dóttur sinni um páskana. Í fórum þeirra fundust níu kíló af amfetamíni, tíu kíló af MDMA og tæp 200 grömm af kókaíni. Báðar voru hnepptar í gæsluvarðhald. Stúlkunni var sleppt þremur vikum síðar þar sem ekkert benti til að hún hafi vitað af efnunum. Hún hélt skömmu síðar af landi brott.

Dómurinn yfir Mirjam byggir meðal annars á því hversu hrein efnin voru sem lagt var hald á og magn þeirra. Fram að dóminum yfir Mirjam var þyngsti dómur sem hafði fallið fyrir fíkniefnasmygl 10 ár. Þann dóm hlutu Peter Rabe og Rúnar Þór Róbertsson í héraðsdómi í ágúst árið 2009. Árni Hrafn Ásbjörnsson hlaut einnig níu ára dóm í því máli en þremenningarnir smygluðu 55 kílóum af amfetamíni, 54 kílóum af kannabis og 9.432 MDMA-töflum til landsins.

Einu sinni áður hefur einstaklingur verið dæmdur í 11 ára fangelsi vegna fíkniefna en hæstiréttur mildaði dóminn í tíu ár. Þann dóm hlaut Jónas Ingi Ragnarsson árið 2009 fyrir framleiðslu fíkniefna hér á landi. Tindur Jónsson hlaut einnig átta ára dóm í því máli.

Í upphafi árs 2002 var Kurt Fellner dæmdur í tólf ára fangelsi. Það er eina skiptið sem refsiramminn hefur verið fullnýttur. Refsingin yfir Fellner var milduð um þrjú ár.