Deila Sólstafa fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur

14.01.2016 - 23:01
Guðmundur Óli Pálmason, fyrrverandi trommari þungarokkssveitarinnar Sólstafa, hefur stefnt Aðalbirni Tryggvasyni, söngvara sveitarinnar, fyrir að nota nafn og vörumerki sveitarinnar í óleyfi. Vörumerkið Sólstafir er í eigu útgáfufélagsins Svalbard Music og telur Guðmundur að Aðalbjörn hafi tekið það yfir með ólögmætum hætti. Stefnan var send Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag.

Guðmundur Óli segir í stuttri fréttatilkynningu á vef Sólstafa að Aðalbjörn hafi reynt að sækja um einkaleyfi á notkun vörumerkisins Sólstafa til Einkaleyfastofunnar - umsókn Aðalbjarnar hafi ekki verið tekin til greina. 

Guðmundur Óli og Aðalbjörn voru einu eigendur útgáfufélagsins Svalbard Music Group en eini tilgangur félagsins var að halda utan um starfsemi hljómsveitarinnar, sem nýtur mikilla vinsælda meðal þungarokksaðdáenda.

Í byrjun síðasta árs slettist upp á vinskapinn þegar Aðalbjörn sendi Guðmundi tölvupóst með undirskrift annarra liðsmanna í sveitinni - Guðmundi var tilkynnt að nærveru hans væru ekki lengur óskað. Sveitin var þá á leið í tónleikaferðalag um Evrópu til að fylgja eftir sinni nýjustu plötu.

Trommarinn létti á hjarta sínu um þessa atburðarás í júní - hann sagðist hafa leitað allra leiða til að ná sáttum. Meðal annars hefði þungarokkssveitin farið á fund fjölskylduráðgjafa. Sá fundur hefði engu skilað.

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV