Danaprins verður ekki grafinn hjá konu sinni

04.08.2017 - 01:53
Mynd með færslu
 Mynd: Holger Motzkau  -  Wikimedia Commons
Hjónin Hinrik Danaprins og Margrét Danadrottning munu ekki liggja hlið við hlið eftir að þau eru borin til hinstu hvílu og þykir það söguleg ákvörðun. Danska konungsfjölskyldan tilkynnti þetta í dag. Til stóð að þau hvíldu saman í dómkirkjunni í Hróarskeldu í sérútbúinni steinkistu en Hinrik ákvað að svo yrði ekki. Hann er ósáttur við að hafa í gegnum tíðina mátt þola að vera ekki jafnrétthár innan dönsku konungsfjölskyldunnar og Margrét og vill því ekki vera grafinn við hlið hennar.

Óánægjan hefur ágerst undanfarin ár, er haft eftir upplýsingafulltrúa konungsfjölskyldunnar á vef danska ríkisútvarpsins, DR. Þetta má meðal annars rekja til þess að Hinrik var áður titlaður drottningarmaður, frekar en prins, en hann hafnaði þeim titli í fyrra. Hann hefur lengi verið ósáttur við að bera ekki titilinn konungur. Margrét Danadrottning hefur vitað af ákvörðun Hinriks um nokkurt skeið og virðir hana við eiginmann sinn. 

Söguleg ákvörðun

Ákvörðun Hinriks er söguleg. Þetta segir Anette Kokholm, konungsfjölskyldusérfræðingur danska ríkisútvarpsins, sem trúði varla fréttunum. Hún segir að Hinrik hefni sín með afgerandi hætti með því að ákveða að vera ekki grafin við hlið drottningarinnar enda sé aldagömul hefð fyrir því að danskir þjóðhöfðingjar séu grafnir við hlið maka síns í Dómkirkjunni í Hróarskeldu. Aðeins þrír þjóðhöfðingjar hafa ekki fylgt þeirri hefð síðan hún komst á, segir hún.

Hinrik Marie Jean André greifi af Laborde de Monpezat fæddist árið 1934 í Frakklandi. Hann giftist Margréti Þórhildi árið 1967 og er faðir Friðriks krónprins og Jóakims prins. Hann talar, auk dönsku og frönsku, ensku, kínversku og víetnömsku sem hann las í skóla. Hann hefur meðal annarra verka starfað í franska sendiráðinu í Lundúnum og gefið út ljóða- og matreiðslubækur.

Sjá frétt danska ríkisútvarpsins hér.

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV