Costco opnar risaverslun í Garðabæ

17.12.2014 - 18:58
Mynd með færslu
Bandaríska verslunarkeðjan Costco ætlar að opna fjórtán þúsund fermetra verslun við Kauptún í Garðabæ fyrir næstu jól. Costco er þriðja stærsta smásölukeðja í heimi.

Forsvarsmenn bandarísku verslunarkeðjunnar Costco hafa um nokkurt skeið haft í hyggju að opna verslun hér á landi. Fyrir skömmu festu þeir svo kaup á stórum hluta verslunarhúsnæðis við Kauptún í Garðabæ, þar sem þeir ætla að opna verslun.

„Já við höfum fengið að heyra það að þeir vilji koma í Garðabæinn, hingað í Kauptúnið. Valið stóð á milli Kauptúnsins og Korputorgs. Og við höfum fengið þessar upplýsingar og erum auðvitað himinánægð með það,“ segir Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Costco er þriðja stærsta smásölukeðja í heimi. Í verslunum fyrirtækisins er mikið vöruúrval, allt frá matvöru yfir í dekk og bensín. Fyrirtækið hefur farið þess á leit við hérlend stjórnvöld að slakað verði á reglum um innflutning og smásölu á fersku kjöti, áfengi og lyfjum, sem þeir selja í verslunum sínum erlendis. Samkvæmt heimildum fréttastofu fengu þeir þó engar undanþágur frá þeim reglum. Vöruverð í Costco er almennt lægra en í öðrum verslunum en þeir selja meira magn í einu, og gegn því að kaupendur séu í viðskiptamannaklúbbi. 

„Við höfum heyrt að þeir vilji opna hér fyrir næstu jól og nú taka við viðræður um skipulagsmál og eitt og annað. Þeir hyggjast fara inn í þetta hús sem við stöndum við - 14.000 fermetra verslun sem þeir ætla að opna. Og við hlökkum til að fara að vinna með þeim að þeim breytingum sem þurfa að eiga sér stað,“ segir Gunnar og bætir því við að koma Costco í Garðabæ hafi mikla þýðingu fyrir bæinn, og þá sérstaklega íbúa í nýju hverfi í Urriðaholti.

„En síðast en ekki síst hefur þetta mikla þýðingu fyrir samkeppnina og vöruverð á Íslandi og því fögnum við auðvitað sérstaklega,“ segir Gunnar.

johann@ruv.is