Clinton og Trump sigurstrangleg í dag

Mynd með færslu
 Mynd: AP (samsett mynd)
Donald Trump og Hillary Clinton eru sigurstrangleg í forkosningunum í Bandaríkjunum í dag. Ofurþriðjudagurinn svokallaði er í dag og þá velja demókratar og repúblikanar kjörmenn í fjölmörgum ríkjum landsins. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur Hillary Clinton um 20 prósenta forskot á Bernie Sanders hjá demókrötum og hjá rebúblikönum nýtur auðkýfingurinn Donald Trump um helmingi meira fylgis en sá sem næst honum kemur. Nýjustu kannanir benda til þess að bæði Sanders og Clinton gætu lagt Trump.

Úrslitin í dag gætu skipt sköpum um hverjir verða forsetaefni repúblikana og demókrata í forsetakosningunum 8. nóvember. Demókratar velja 865 kjörmenn og repúblikanar 595.

Stefnir í stórsigur hjá Donald Trump

Kannanir benda til þess að Donald Trump vinni stórsigur í forkosningunum í dag. Repúblikanar velja kjörmenn í 12 ríkjum og Trump á sigur vísan í þeim öllum nema Texas þar sem heimamaðurinn Ted Cruz þykir öruggur með sigur. Repúblikanar velja fulltrúa í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Oklahoma, Tennessee, Texas, Vermont, Virginíu, Alaska og Minnesota. Trump hefur áður haft sigur í þremur af þeim fjórum ríkjum sem þegar hafa valið fulltrúa.

Þungavigtarmaður afneitar Trump

Kosningafundi Donalds Trump í Virgínu var slitið í miðju kafi í gær vegna mótmæla. Trump er gagnrýndur fyrir að fordæma ekki Ku klux klan, öfgahreyfingu hvítra kynþáttahatara. Öldungadeildarþingmaðurinn Ben Sasse frá Nebraska lýsti því formlega yfir í gær að hann ætli ekki að styðja Donald Trump, verði hann frambjóðandi repúblikana í forsetakosningunum. Sasse er fyrsti þungavigtarmaðurinn úr Repúblikanaflokknum sem afneitar Trump með svo afgerandi hætti en hann er gjarnan tengdur Teboðinu svokallaða.

Hillary Clinton sigurstangleg hjá demókrötum

Hillary Clinton er sigurstangleg hjá demókrötum þótt Bernie Sanders sé enn í sterkri stöðu. Hillary vann sannfærandi sigur í Suður-Karólínu um helgina en blökkumenn hafa alla tíð verið mikilvægir í stuðningshópi þeirra Clinton hjóna. Í Suður-Karólínu fékk hún 8 af 10 atkvæðum blökkumanna. Demókratar velja fulltrúa í Alabama, Arkansas, Georgíu, Massachusetts, Oklahoma, Tennessee, Texas, Vermont, Virginíu, Colorado og Minnesota auk Samóaeyja í Suður-Kyrrahafi. Skráðir demókratar í útlöndum geta einnig kosið. 

Bernie Sanders ætlar ekki að gefast upp

Jane Sanders, eiginkona Bernie Sanders, segir að ofurþriðjudagurinn verði honum erfiður en þau hyggist berjast fram á síðustu stundu í forvalinu. „Við reiknum með að vinna í einhverjum ríkjum og tapa í öðrum en staðan verði betri eftir því sem líður á forkosningarnar."  

Bandaríkjamenn velja arftaka demókratans Baracks Obama í forsetakosningum 8. nóvember. Obama hefur setið tvö kjörtímabil. Repúblikanar hafa hins vegar tögl og hagldir í báðum deildum þingsins.

Repúblikanar velja 25% fulltrúanna

Repúblikanar velja 595 fulltrúa í dag eða 25% af heildarfjölda fulltrúanna. Forsetaefni repúblikana þarf að tryggja sér stuðning 1.237 fulltrúa til að tryggja sér útnefningu til forseta. Í flestum tilfellum fá frambjóðendur fulltrúa í samræmi við fylgi, þannig að þeir sem lenda í öðru og þriðja sæti geta tryggt sér allnokkra fulltrúa. Fyrir daginn í dag hafði Donald Trump tryggt sér 82 fulltrúa, Ted Cruz 17 og Marco Rubio 16.

Ofurfulltrúar demókrata skipta miklu

Demókratar velja 865 fulltrúa í dag. Forsetaefni demókrata þarf að tryggja sér 2.383 fulltrúa til að tryggja sér útnefningu til forseta. Hjá demókrötum eru einnig svonefndir ofurfulltrúar sem eru áhrifamenn innan flokksins sem ætlað er að tryggja að frambjóðandi flokksins verði flokksforystunni samboðinn. Langflestir þessara fulltrúa hafa lýst yfir stuðningi við Hillary Clinton, þótt vitanlega geti þeir skipt um skoðun. 

Spennan mikil í Texas og Masachusetts

Fréttaskýrendur horfa ekki síst til Texas og Masachusetts í dag. Texas er stórt ríki og mikilvægt. Þar eru flestir fulltrúar í boði eða 55 hjá repúblikönum og 252 hjá demókrötum. Þetta er heimaríki öldungadeildarþingmannsins Ted Cruz og kannanir benda til þess að hann eigi sigurinn vísan. Tap fyrir Trump á heimaslóðum myndi gera út af við möguleika Cruz en hann nýtur stuðnings núverandi og fyrrverandi ríkisstjóra í Texas.

Opið í Masachusetts

Í Masachusetts gætu hófsamir kjósendur sett strik í reikninginn og husanlega skaðað Donald Trump. Forvalið hjá demókrötum í Masachusetts er opið þannig að allir, sem skrá sig, geta kosið, óháð flokksskírteini. Það hefur vakið athygli að stærsta blað ríkisins, Boston Globe, hefur hvatt demókrata til að kjósa John Kasich, ríkisstjóra Ohio til að veikja kosningabaráttu Trumps. Economist hefur einnig sagt að John Kasich sé vænlegasti frambjóðandi repúblikana.

Úrslitaáhrift á gengi frambjóðenda

Ofurþriðjudagurinn hefur oft haft úrslitaáhrift á gengi frambjóðenda. Mitt Romney tryggði sér nánast útnefningu repúblikana með góðum árangri á þessum degi árið 2012. Nú gæti staðan verið flóknari. Ekki síst vegna þess að í mörgum ríkjum fá frambjóðendur fulltrúa í samræmi við fylgi. Sigurvegarinn fær ekki endilega alla fulltrúa eins og víða annars staðar. Því er talið fullvíst að menn eins og Marco Rubio og John Kasich bíði með ákvörðun fram yfir kosningarnar til 15. mars. Þá verður kosið í stórum ríkjum eins og Florida og Ohio, þar sem sigurvegarinn fær alla fulltrúa ríkjanna. Líklegt er talið að skurðlæknirinn Ben Carson leggi árar í bát á morgun. Ekki er búist við miklum breytingum hjá demókrötum eftir daginn. Jafnvel þótt Hillary Clinton vinni stórt eru engar líkur á að Bernie Sanders gefist upp.

Alabama

Í Alabama velja repúblikanar 50 fulltrúa og demókratar 60. Hillary Clinton fékk 59% en Bernie Sanders 31% í könnun í miðjum síðasta mánuði. Trump hefur verið með um 38% að jafnaði hjá repúblikönum, Rubio 20% og Cruz 15%. Mikið er af blökkumönnum í Alabama sem styðja flestir Hillary Clinton. Á móti kemur að meðaltekjur eru lágar í ríkinu og efnaminna fólk hallar sér frekar að Sanders. 

Alaska

Í Alaska velja repúblikanar 28 fulltrúa á kjörfundi en demókratar halda ekki kjörfund fyrr en 26. mars í Alaska. Nánast engar kannanir hafa verið gerðar í ríkinu og engin nýlega svo töluverð óvissa er um niðurstöðuna í dag. Meðaltekjur eru mjög háar í ríkinu sem gæti haft áhrif á útkomuna.  Fréttaskýrendur fara þó mjög varlega í að spá fyrir um úrslit.

Arkansas

Í Arkansas velja repúblikanar 40 fulltrúa og demókratar 37. Hillary Clinton vann í þessu ríki árið 2008 en Bill Clinton var einmitt ríkisstjóri í Arkansas á árum áður. Allir gera ráð fyrir að Clinton fari einnig með sigur úr býtum að þessu sinni. Fáar kannanir hafa verið á fylgi repúblikana og þær hafa verið misvísandi. Árið 2012 vann Mitt Romney í ríkinu og varð frambjóðandi repúblikana en 2008 vann Mick Huckabee í Arkansas en tóks ekki að tryggja sér útnefningu repúblikana. 

Colorado

Í Colorado velja repúblikanar 37 fulltrúa og demókratar 78. Fulltrúarnir eru valdir á kjörfundi og hjá repúblikönum verða fulltrúarnir óskuldbundnir frambjóðendum og þurfa ekki að ákveða sig fyrr en á flokksfundinum í Cleveland í júlí. Kannanir hafa líka verið fátíðar og misvísandi svo ómögulegt er að spá fyrir um niðurstöðuna. Menntun er meiri í ríkinu en almennt í landinu og fólk er að jafnaði efnameira og yngra en annars staðar.

Georgia

Í Georgia velja repúblikanar 76 fulltrúa og demókratar 117. Árið 2012 var þetta eina ríkið sem Newt Gingrich fór með sigur af hólmi. Að þessu sinni er talið fullvíst að Trump og Clinton vinni örugglega, þrátt fyrir að Obama hafa unnið Hillary Clinton í Georgia 2008. Næstum þriðjungur kjósenda eru blökkumenn og kannanir hafa sýnt að 70% kjósenda demókrata meðal blökkumanna velja Clinton framyfir Sanders.

Massachusetts

Í Massachusetts velja repúblikanar 42 fulltrúa og demókratar 116. Hér er afar mjótt á munum milli Clinton og Sanders en Hillary Clinton varð hlutskörpust í ríkinu árið 2008. Trump hefur haft örugga forystu hjá repúblikönum. Íbúar ríkisins eru auðugri en almennt gerist og hvítt fólk í óvenju miklum meirihluta. 

Minnesota

Í Minnesota verja repúblikanar 38 fulltrúa á kjörfundi og demókratar 93. Venjulega hafa íbúar Minnesota valið fulltrúa sína fyrr en nú en formaður repúblikana í ríkinu, Keith Downey, segir að Minnesota skipti meira máli nú þegar valið er á ofur þriðjudaginn. 

Oklahoma

Í Oklahoma velja repúblikanar 43 fulltrúa en demókratar 42. Forskot Clinton og Trump eru minni hér en víðast hvar annars staðar og því gæti niðustaðan orðið spennandi. Samkvæmt könnunum er líka innan við 2% munur á Ted Cruz og Marco Rubio og sú barátta getur líka skipt máli. 

Tennessee

Í Tennesse velja repúblikanar 58 fulltrúa og demókratar 75. Kannanir hér eru varasamar því þær hafa verið fátíðar og misvísandi. Clinton virðist þó eiga sigurinn vísan, eins og raunin varð 2008. Íbúar ríkisins eru flestir hvítir og tekjur lægri en víðast hvar annars staðar. Þeir eru líka trúaðri en fólk í flestum öðrum ríkjum sem velja fulltrúa á ofurþriðjudaginn. Ted Cruz gæti að einhverju leyti notið góðs af því.

Texas

Í Texas velja repúblikanar 155 fulltrúa en demókratar 251. Allra augu verða á Texas enda óvenju margir fulltrúar í boði. Sigur í Texas skiptir gríðarmiklu máli. Ted Cruz leiðir í öllum könnunum og sannfærandi sigur getur skipt miklu fyrir framhaldið. Árið 2008 völdu íbúar ríkisins Hillary Clinton. Rúmlega þriðjungur íbúa er spænskumælandi. 

Vermont

Í Vermont velja repúblikanar 16 fulltrúa og demókratar 26. Talið er fullvíst að Bernie Sanders vinni í heimaríki sínu en ólíklegt að það breyti miklu á landsvísu. Þetta er eitt minnsta ríki og því fáir fulltrúar í boði.

Virginia

Í Virginia velja reppúblikanar 49 fulltrúa en demókratar 109. Hér eru ekki miklar líkur á spennandi baráttu. Allt bendir til þess að Hillary Clinton og Donald Trump séu með afgerandi forystu.  

Samóaeyjar

Samóeyjar er eykjaklasi í Suður-Kyrrahafi. Þar verða valdir 10 fulltrúar demókrata. Á Samóeyjum eru 55 þúsund íbúar á eyjaklasa nálægt Ástralíu. Eyjaskeggjar eru bandarískir þegnar en ekki ríkisborgarar. Þeir geta því sent fulltrúa til að velja frambjóðendur en geta ekki kosið í sjálfum kosningunum.