Clinton gagnrýndi hugmyndir Sanders

Democratic presidential candidate, Sen. Bernie Sanders, I-Vt,  and Democratic presidential candidate, former Secretary of State Hillary Clinton spar during a Democratic presidential primary debate hosted by MSNBC at the University of New Hampshire
 Mynd: AP
Hillary Clinton og Bernie Sanders, sem berjast um að verða forsetaefni demókrataflokksins, tókust á í kappræðum í New Hampshire í nótt. Clinton var gagnrýnin á hugmyndir Sanders og Sanders sagði Clinton of hænda að peningunum á Wall Street.

Sanders hefur talsvert forskot á Clinton í New Hampshire ríki miðað við nýjustu kannanir. Aðeins munaði 0,2 prósentum á þeim í fyrstu forkosningunum í Iowa og því ljóst að spenna verður um hvort þeirra fær útnefningu demókrataflokksins, í það minnsta til að byrja með.

Clinton gagnrýndi hugmyndir Sanders um almenna heilsugæslu og sagði þær stefna Obamabare í hættu. Það yrðu mikil mistök. Jafnframt sagði hún að ókeypis háskólanám yrði allt of kostnaðarsamt til þess að geta orðið að raunveruleika. 

Sanders svaraði gagnrýni Clinton. Hann sagðist ekki ætla að eyðileggja Obamacare, heldur snúist áætlanir hans um að útvíkka það. Hann benti á að fjöldi landa byði upp á almenna heilbrigðisþjónustu. Þá sagði hann að skattar yrðu lagðir á spákaupmennsku á Wall Street til þess að greiða fyrir fría háskólamenntun. Miðstéttin hafi leyst Wall Street út á sínum tíma, nú sé komið að Wall Street að hjálpa miðstéttinni.

Sanders telur Clinton hafa allt of mikil tengsl við fjármálamarkaðinn á Wall Street. Hann benti á að fjáröflunarhópar hennar hafi tekið við styrkjum þaðan og að hún hafi þegið fé fyrir að halda ræðu fyrir Goldman Sachs. Clinton gerði lítið úr því og sagði peninga aldrei hafa ráðið stefnu hennar.

Kosið verður í New Hampshire eftir helgi. 

 

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir