Byggðarmálin voru vel veg á komin

07.04.2014 - 11:01
Mynd með færslu
Undirbúningur aðildar í byggðamálum var vel á veg kominn og fátt virtist standa í vegi fyrir því að samningar við ESB gætu náðst í þeim hluta. Mikill undirbúningur fór fram af hálfu Íslands í landbúnaðarmálum vegna aðildarumsóknar og umtalsverð þekkingaruppbygging hafði átt sér stað.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við ESB sem kynnt var í dag.  Þar segir að samningsafstaða hafi verið á lokastigum í janúar 2013 þegar ákveðið var að setja aðildarviðræðurnar í hægagang framyfir alþingiskosningarnar.

Skýrsluhöfundar telja að viðræðurnar hefðu að miklu leyti snúist um hversu mikinn stuðning Ísland gæti fengið úr sjóðum ESB - hversu mikinn innlendan stuðning Ísland fengi heimild til að veita íslenskum landbúnaði og hversu mikinn framleiðslutengdan stuðning hefði mátt veita. 

Í skýrslunni kemur fram að farið hafi verið fram á tíu undanþágur vegna kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði. Skýrsluhöfundar segja erfitt að meta líkur á að kröfur Íslands hefðu náðst í gegn þar sem gert var hlé á viðræðum áður en viðbrögð ESB komu við samningsafstöðunni.

Í skýrslunni er því haldið fram að mikilvægustu kröfurnar hefðu snúið að innflutningi lifandi dýra og innflutningi á fersku kjöti. Skýrsluhöfundar hafa eftir embættismönnum innan ESB að líklegt væri að krafa Íslands um takmarkanir á innflutningi lifandi dýra hefði fengið efnislega meðferð. „Og ef Ísland hefði getað sýnt fram á að hún væri byggð á vísindalegum grunni þá hefði verið fundin leið til að mæta kröfunni,“ segir í skýrslu Alþjóðamálastofnunar.

Skýrsluhöfundar segja þó að slík undanþága yrði endurskoðuð með reglulegu millibili með hliðsjón af mögulegum breytingum á hinu vísindalega mati. Skýrsluhöfundar benda á að aðildarríki ESB hafi nánast enga viðskiptalega hagsmuni af því að flytja lifandi dýr til Íslands.

Skýrsluhöfundar telja að í fljótu bragði virðast reglur ESB gefa möguleika á ýmis konar undanþágum um innflutning tiltekinna hráefna eða afurða. Þó yrði að vera hægt  að sýna fram á að dýrum, almenningi eða náttúru stafi raunveruleg hætta af innflutninginum.

freyrgigja@ruv.is