Bullandi ágreiningur í bæjarstjórn

27.02.2016 - 18:28
Mynd með færslu
Séð yfir Kársnes í Kópavogi  Mynd: Kópavogsbær
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi segir að bullandi ágreiningur sé í bæjarstjórn um framtíðarhúsnæði bæjarskrifstofanna. Meirihluti bæjarstjórnar hafi kosið gegn sannfæringu sinni þegar samþykkt var að hafa skrifstofurnar áfram í núverandi húsnæði.

Bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í vikunni að bæjarskrifstofur bæjarins verði um kyrrt í Fannborg í Kópavogi og að ráðist skuli í endurbætur og viðhald á húsnæðinu.

Húsnæðismál bæjarins hafa verið mikil rússíbanareið sem torvelt getur verið fyrir meðalgreindan mann að henda reiður á. Fyrst stefndi meirihluti Sjálfstæðismanna að því að flytja í Norðurturn í Smáralind. Þá var settur á stofn samráðshópur allra flokka sem skilaði tveimur valkostum, annars vegar að flytja, hins vegar að vera um kyrrt.

Þegar greiða átti atkvæði um þessa valkosti á þriðjudag lagði Samfylkingin fram þriðju tillöguna um að hanna nýtt hús við Molann á Hábraut. Svo virðist sem meirihluti bæjarfulltrúa hefði getað stutt þessa tillögu. Þá var gert hlé á fundinum og að því loknu lagði bæjarstjórinn fram tillögu um að skrifstofurnar færu hvergi og var það samþykkt. 

 

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV