Búið að taka skýrslu af lögreglufulltrúanum

30.01.2016 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Embætti héraðssaksóknara tók á fimmtudag skýrslu af lögreglufulltrúanum sem grunaður er um brot í starfi, samkvæmt heimildum fréttastofu. 17 dagar voru þá liðnir síðan málið var tekið til formlegrar rannsóknar hjá embættinu. Búið er að taka skýrslur af fjölda fólks í tengslum við rannsókn málsins, meðal annars samstarfsmönnum lögreglufulltrúans hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, eftir því sem fréttastofa kemst næst.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, gat lítið tjáð sig um málið og vildi ekki staðfesta hvort búið væri að taka skýrslu af lögreglufulltrúanum. Hann sagði þó að rannsókn málsins væri vel á veg komin - hann tók þó skýrt fram að henni væri ekki lokið. Ólafur staðfesti enn fremur búið væri að taka þó nokkuð margar skýrslur.

Ríkissaksóknari ákvað að eigin frumkvæði að hefja rannsókn á máli lögreglufulltrúans um miðjan þennan mánuð. Hann hafði þá verið ítrekað til umfjöllunar í fjölmiðlum og bendlaður við spillingu. Ríkissaksóknari vísaði síðan málinu til embættis héraðssaksóknara.  

Ólafur Þór telur að í því ljósi sé líklegt að hann muni gera ríkissaksóknara grein fyrir því hver niðurstaðan úr rannsókninni verður - hvort lögreglufulltrúinn verði ákærður fyrir brot í starfi eða ekki. Lögreglufulltrúanum var frá störfum tímabundið 14. janúar. Hann bauðst sjálfur til að víkja úr fíkniefnadeildinni síðastliðið sumar á meðan ávirðingar á hendur honum væru skoðaðar.

Ríkissaksóknari er sjálfur með mál annars lögreglumanns hjá fíkniefnadeildinni til rannsóknar - sá sat í gæsluvarðhaldi skömmu fyrir áramót eftir að embættinu barst hljóðupptaka um miðjan desember. Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að í samtalinu upplýsi lögreglumaðurinn símavin sinn um málefni sem leynt áttu að fara.

Miklar væringar hafa verið innan fíkniefnadeildarinnar að undanförnu. Fyrir skömmu var Aldís Hilmarsdóttir, yfirmaður hennar, færð til í starfi án samráðs við hana. Hún hafði vikuna áður átt fund með innanríkisráðherra um samskiptavanda innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Samkvæmt heimildum fréttastofu er Aldís með lögmann í sínu máli og hefur krafið Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra, um rökstuðning fyrir þessari ákvörðun. Engar upplýsingar hafa fengist hvort Aldís ætli að taka við nýja starfinu - Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans, sagði þetta tímabundna ráðstöfun næsta hálfa árið. Runólfur Þórhallsson hefur verið skipaður yfirmaður fíkniefnadeildar - hann kemur frá embætti ríkislögreglustjóra.