Buðu Anderson helmingi lægri laun en Duchovny

26.01.2016 - 01:44
Actors David Duchovny, left, and Gillian Anderson participate in "The X Files" panel at the Fox Winter TCA on Friday, Jan. 15, 2016, Pasadena, Calif. (Photo by Richard Shotwell/Invision/AP)
 Mynd: Richard Shotwell/Invision/AP  -  Invision
Gillian Anderson segir að henni hafi aðeins verið boðinn helmingur þeirra launa sem David Duchovny bauðst þegar rætt var við þau vegna nýrrar þáttaraðar X-Files. Fyrsti þátturinn í nærri fjórtán ár var sýndur í Bandaríkjunum liðna nótt.

Anderson, sem fer með hlutverk alríkislögreglumannsins Dana Scully, greindi fyrst frá þessu í viðtali við Hollywood Reporter. Aðstandendur þáttaraðarinnar komu saman til þess að ræða tilurð hennar. Þar sagði hún að það þýddi ekkert fyrir hennar umboðsmann að vera fyrri til að ræða launakjör, henni væri alltaf boðið helmingi lægra kaup en Duchovny.

Í viðtali við vefmiðlinn The Daily Beast segir hún að það hafi tekið hana þrjú ár á sínum tíma að fá sömu laun og Duchovny fyrir leik sinn í X-Files. Þar segir hún einnig frá því hvernig henni var í fyrstu ýtt örlítið frá Duchovny. Hún þurfti alltaf að standa fyrir aftan hann í tökum og varð að passa sig á því að standa aldrei við hlið hans.

Þrjú ár að ná launajafnrétti

Anderson segist ekki muna eftir því að neinn hafi boðið henni jöfn laun. Hún hafi þurft að stíga sjálf fram og heimta sömu laun fyrir sömu vinnu. Alls léku Anderson og Duchovny þau Scully og Mulder í níu þáttaröðum áður en sýningum var hætt.

Það kom henni því verulega á óvart þegar henni voru aftur boðin helmingi lægri laun en meðleikara hennar þegar samið var um laun fyrir nýju þáttaröðina. Síðustu ár hefur hún sagt í viðtölum að launamisréttið heyrði fortíðinni til, en svo gerðist það aftur. Hún segir það sorglegt. Nú þegar umræðan um launajafnrétti kynjanna í Hollywood er í hámæli þurfi þessar raddir að heyrast.

Anderson kveðst í viðtalinu vera spennt fyrir útgáfu nýju þáttaraðarinnar, hvort sem framhald verði á eða hætt verði eftir þessa einu.

Blendin viðbrögð

Áhorfendur virðast hafa tekið vel í fyrsta þátt nýju þáttaraðarinnar ef marka má dóma þeirra á kvikmynda- og sjónvarpsvefnum Rotten Tomatoes. Þar fær þátturinn 4,3 af 5 í einkunn áhorfenda en ánægja gagnrýnenda er blendnari. 28 þeirra eru ánægðir með þáttinn en 21 óánægður. Margir eru þó bjartsýnir á að framhaldið verði betra.

Annar þáttur nýju þáttaraðarinnar verður sýndur í nótt í Bandaríkjunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV