Breyting gerð á stigagjöf í Eurovision

18.02.2016 - 10:55
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Atkvæðagreiðsla í Eurovision verður með breyttu sniði í keppninni í Stokkhólmi í maí. Markmiðið með breytingunni er sagt vera að gera atkvæðagreiðsluna meira spennandi.

Síðustu ár hafa atkvæði frá hverju landi verið til helminga byggð á atkvæðagreiðslu sérstakrar dómnefndar í hverju landi og símakosningu almennings til helminga.

Breytingin sem gerð hefur verið felur það í sér að fyrst kynna fulltrúar þátttökulandanna niðurstöður dómnefndar í sínu landi. Í lokin verður síðan safnað saman niðurstöðum úr símakosningum allra landanna og þær tilkynntar þannig að fyrst verður greint frá því landi sem fékk fæst atkvæði og endað á því landi sem fékk mest úr símakosningunni. Þannig geti úrslitin ekki verið ljós fyrr en á loka mínútunum.

Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri söngvakeppninnar segir að breytingin geri stigagjöfina sjónvarpsvænni. „Nú er enn meiri ástæða til að greiða atkvæði í Eurovision," segir hann í viðtali á vefsíðu keppninnar. „Nýja stigagjöfin tryggir að vinsælasta lagið meðal almennnings fái tólf stig óháð niðurstöðu dómnefndar. Það er viðeigandi að þessi breyting á stigagjöfinni verði kynnt til sögunnar í Stokkhólmi, þar sem tólf stiga kerfið var tekið upp árið 1975."

Martin Österdahl, framkvæmdastjóri keppninnar í Stokkhólmi, segir að síðustu ár hafi sigurvegari keppninnar jafnvel verið kunnur allt upp í tuttugu mínútur áður en atkvæðagreiðslu lauk. „Það er ekki gott sjónvarp. Þessi breyting gerir lokasprett keppninnar meira spennandi."

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV