Börnunum ekki fyrir bestu að ættleiða þau

12.01.2016 - 16:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er fylgdarlausum börnum í flóttamannabúðum ekki fyrir bestu að auðvelda ferli við ættleiðingu á þeim til annarra landa, segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra. Nærtækara sé að efla og styrkja það alþjóðlega mannúðarstarf sem þegar er til staðar í búðunum.

 

Þetta kemur fram í svari Ólafar Nordal innanríkisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Jóhanna María spurði hvaða fyrirkomulag gilti ef einhver vildi ættleiða munaðarlaust barn úr flóttamannabúðum og hvort ráðherra hefði skoðað möguleika á slíkum ættleiðingum til Íslands.

Engar heimildir á Norðurlöndum

Ólöf vísaði til aðildar Íslands að Haag-samningnum um ættleiðingar. Samkvæmt honum á að tryggja rétt barna og koma í veg fyrir brottnám og verslun með börn. Ekkert ríkjanna á Norðurlöndum er með heimildir um ættleiðingar úr flóttamannabúðum og engin stjórnvöld í þessum ríkjum stefna að breytingu á því. Ráðherra bendir á að í kjölfar hamfaranna á Haítí fyrir nokkrum árum hafi verið vakin athygli á því að aukin hætta á mansali eða sölu á börnum gæti skapast í kjölfar styrjalda eða náttúruhamfara, við þær aðstæður ætti að setja í algeran forgang að sameina barn og foreldra eða upprunafjölskyldu. Einnig ætti markvisst að forðast eða stöðva ótímabærar umsóknir um ættleiðingar eða umsóknir utan hefðbundinna leiða.

Ráðherra segir í svari sínu að í ljósi ofangreinds sé það ekki fyrir bestu að auðvelda ferlið við að ættleiða börn úr flóttamannabúðum til annarra landa. Hún segir að ekki sé loku fyrir það skotið að fylgdarlaust barn eigi foreldra á lífi eða aðra nána ættingja. Nær væri að efla starfið í flóttamannabúðunum.

Nefnt í stefnuræðu

Í stefnuræðu sinni síðastliðið haust nefndi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra að meta þyrfti hvort hægt væri að einfalda ættleiðingu barna frá Sýrlandi og öðrum stríðshrjáðum löndum. Hann vísaði til þess að þúsundir sýrlenskra barna væru munaðarlausar og byggju við erfiðar aðstæður.