„Börnin fæðast fordómalaus“

05.01.2016 - 21:05
Velferðarráðuneytið og Innflytjendaráð hrinda nú af stað herferð gegn fordómum og hafa af því tilefni gert stuttmyndina Við fæðumst fordómalaus-Hvað svo? Ævar Þór Benediktsson betur þekktur sem Ævar vísindamaður spyr börn út í atriði sem eru daglega í umræðunni og fær við þeim einlæg og fordómalaus svör.

Útgangspunktur myndarinnar er að öll fæðumst við fordómalaus en svo býr samfélagið til fordóma. Sigurjón Kjærnested, formaður Innflytjendaráðs segir neikvæða umræðu og fordóma gegn innflytjendum hafa aukist í samfélaginu síðustu misseri og tengir það helst við mikla umræðu um flóttamannavandann sem nú geysar í Evrópu. Tatjana Latinovic, varaformaður ráðsins tekur í sama streng og telur líka að í umræðunni séu innflytjendur á Íslandi og flóttamenn settir undir sama hatt. Hún segir marga gleyma því að hingað komi fólk ekki endilega í sárri neyð heldur í leit að nýjum tækifærum og tilbreytingu.  

Tatjana giftist íslenskum manni og kom hingað til lands frá Serbíu árið 1994.  Hún segir hatursorðræðuna meiri nú en fyrir rúmum tuttugu árum en það skýrist líka vegna aukinna áhrifa samfélagsmiðla og þá hafi innflytjendur ekki verið mjög margir. Hún segir mikilvægt að halda þessari umræðu áfram og hvetur foreldra til að ræða opinskátt og fordómalaust við börnin sín. Sigurjón segir að börnin geti kennt okkur mikið sérstaklega af því að þau séu öll fordómalaus í upphafi.    

Mynd með færslu
Helga Arnardóttir
Fréttastofa RÚV
Kastljós