Borgin vildi ekki gróðurhvelfingu í Laugardal

10.01.2016 - 14:09
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Borgarráð Reykjavíkur hafnaði á fundi sínum á fimmtudag ósk Hjördísar Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Spors í sandinn, um kaup á lóð milli Laugardalslaugar og tjaldsvæðis undir stóra gróðurhvelfingu. Borgarráð taldi hugmyndina áhugaverða og fól skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að finna mögulega aðra staðsetningu undir gróðurhvelfingu.

Í bréfi Hjördísar til Björns Blöndals, formanns borgarráðs, segir að áhugasamir fjárfestar séu að baki verkefninu og að fjármögnunaraðilum lítist vel á. Þá hafi framkvæmdastjóri gistiheimilisins Farfugla, sem hefur leigt landið, lýst yfir stuðningi við hugmyndina.

Hjördís segir að gróðurhvelfingin eigi að tengjast sundlauginni í Laugardal og bjóða upp á nýja upplifun í ferðaþjónustu, fræðslu og afþreyingu. „Skapa á grænan heim allt árið í kring, ljós í myrkrinu og endurnærandi stað fyrir sál og líkama.“ 

"Komdu inn úr kuldanum í bjarta og græna veröld""Get in from the cold and discover a tropical oasis"

Posted by Spor í sandinn on 1. júlí 2015

Í umsögn umhverfis-og skipulagsráðs, sem lögð var fyrir borgarráð, segir að hugmyndin byggi á þyrpingu þriggja til fjögurra gróðuarhvelfinga og að forsvarsmenn telji að verkefnið muni standa undir sér fjárhagslega. Laugardalur sé hentugasti staðurinn fyrir verkefnið þar sem hann sé í hjarta borgarinnar.

Á Facebook-síðu fyrirtækisins kemur fram að hugmyndin um gróðurhvelfingu hafi einnig verið kynnt fyrir bæjaryfirvöldum í Hafnarfjarðarbæ og þá horft til lóðarinnar við Suðurbæjarlaug.

Kynnum nýjann mögulegan þróunarstað - Biodome Hafnarfjörður. Mynd unnin af Hornsteinum arkitetkum fyrir Spor í...

Posted by Spor í sandinn on 19. ágúst 2015

Raunar kemur fram í umsögninni að forsvarsmenn gróðurhvelfingarinnar telji að verkefnið standi og falli með staðsetningunni í Laugardalnum og að þeir hafi ekki áhuga á að finna annan stað á þessu stigi.  

Hjördís Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Spor í Sandinn, segir í samtali við fréttastofu að þetta sé ekki rétt túlkun – verkefnið standi ekki og falli með þessari staðsetningu og hún óskar eftir tillögum frá borgaryfirvöldum hvar svona gróðurhvelfing gæti staðið með jafn miklum möguleikum og staðurinn í Laugardalnum.  

Áætlaður stofnkostnaður við gróðurhvelfinguna er áætlaður um 780 milljónir og er fjármögnun komin fyrir hluta stofnkostnaðar – það sé þó með því skilyrði að lóð fáist fyrir starfsemin.

Umhverfis- og skipulagsráð telur margt mæla með starfseminni en hún sé þó of fyrirferðarmikil og myndi þrengja of mikið að starfsemi tjaldstæðisins. Þá er ekki tekið undir með forsvarsmönnum gróðurhvelfingarinnar að starfsemin myndi ekki kalla á ný bílastæði – ýmislegt bendi til þess að staðurinn verði fyrst og fremst sóttur af ferðamönnum og kalli jafnvel á aðkomu stórra bíla.

 

ATH: Fréttin hefur verið uppfærð

 

 

 

 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV