Borgaryfirvöld leggjast gegn „Reykjavik Eye“

18.08.2017 - 07:13
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar leggst gegn því að reist verði hundrað metra hátt parísarhjól í borgarlandinu, að minnsta kosti á þeim fjórum stöðum sem lagðir voru til í umsókn um lóðaúthlutun fyrir hjólið. Í umsókninni var hjólið kallað „Reykjavik Eye“, með vísan í sambærilegt útsýnishjól í Lundúnum, „London Eye“. Borgaryfirvöld telja að hjólið mundi hafa „mikil og neikvæð sjónræn áhrif á borgarlandslagið“.

Ráðið lagðist gegn umsókninni á fundi sínum á miðvikudag, á grundvelli umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Í umsögninni segir að hjólinu hafi verið ætlað að vera aðdráttarafl og kennileiti í borgarlandinu að fyrirmynd London Eye og að við það hafi átt að vera „skemmtigarður innblásinn af íslenskum þjóðsögum og hjátrú“. Óskað var eftir tveggja hektara lóð til uppbyggingarinnar, sem átti að vera lokið árið 2019.

Þá var óskað eftir að fá að reisa tveggja hæða byggingu sem mundi hýsa miðasölu, biðsali, veitinga- og kaffihús, sýningarrými fyrir listaverk og fleira, auk tveggja hæða bílakjallara með 1.400 bíla- og mótorhjólastæðum. Þá kom fram í umsókninni að hjólið mundi snúast einn hring á 25 mínútum og á því yrðu 32 farþegahylki með plássi fyrir 25 manns í hverju – samtals kæmust því 800 manns í hjólið í einu og að unnt yrði að starfrækja það í 350 daga á ári.

Hafa áhyggjur af hæðinni

Fjórar staðsetningar voru lagðar til í umsókninni: Laugarnes, Öskjuhlíð, Laugardalur og Örfirisey.

Skrifstofa borgarhönnunar leggst alfarið gegn uppbyggingu hjólsins í borginni. Hjólið muni „í umfangi sínu hafa mikil og neikvæð sjónræn áhrif á borgarlandslagið,“ segir í umsögninni. „Reykjavík einkennist af skýrum sjónlínum til hafs og fjalla og leitast skal við að halda þeirri ásýnd sem sérstöðu borgarinnar. Einnig telst hæð hjólsins ekki falla vel inn í þá lágu byggð sem einkennir borgina.“

Skrifstofa umhverfisgæða var sama sinnis og lýsti áhyggjum af áhrifum hjólsins á ásýnd og útsýni „og að það muni skyggja mikið á útsýni sama hver staðsetningin er“ auk þess sem áhyggjum er lýst af „þeirri miklu hæð sem hjólið er í og velt er vöngum yfir hversu vel hjól af þessari stærðargráðu hentar íslenskum aðstæðum t.d. með tilliti til vinda“.

Þá séu áhrif á fuglalíf „óvissuþáttur sem þyrfti að rannsaka betur ef áframhald yrði á verkefninu en vel er þekkt að stór mannvirki sem hreyfast eins og vindmyllur geta valdið fuglum á flugi hættu“.

Minja- útivistar- og hafnarsvæði óheppileg

Sérstaklega er fjallað um hverja af þeim fjórum staðsetningum sem lagðar eru til í umsókninni og útskýrt hvers vegna hver og ein þykir ekki koma til greina. Fyrst ber að nefna Laugarnesið, sem borgaryfirvöld segja að falli undir minjavernd, þar sé mikið um búsetuminjar og ströndin sé að mestu ósnortin og allur tanginn skilgreindur sem hverfisverndarsvæði. „Staða svæðisins sem sögulegrar heimildar um búsetuhætti og náttúru fyrri alda er einstakt,“ segir í umsögninni.

Um Öskjuhlíð segir að hún eigi sér langa sögu og hafi meðal annars verið eyja fyrir um 11.000 árum „og er þar að finna mjög fjölbreytta jarðsögu seinna hluta ísaldar“. Hin fornu sjávarmörk séu á þeim stað sem óskað var eftir að fá að reisa hjólið. Þá séu almennar söguminjar og stríðsminjar í Öskjuhlíð, auk þess sem vinsældir hennar sem útivistarsvæðis hafi aukist og hún sé mikilvægur hlekkur í tengingu útivistarsvæða í Reykjavík. Halda skuli uppbyggingu í og við Öskjuhlíð í lágmarki.

Í kaflanum um Laugardal segir að hann sé íþrótta- og útivistarsvæði sem ekki sé vel fallið til svona sértækrar uppbyggingar. Þar séu engar byggingar af þessari stærðargráðu og því mundi hjólið skera sig mikið úr umhverfinu.

Og um Örfirisey segir að hún sé innan lögsagnar Faxaflóahafnar og skilgreind sem hafnarsvæði í skipulagi. Útsýnishjól teljist hins vegar ekki til „hafnsækinnar starfsemi“.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV