Borgarstjóri segir að grunnþjónusta sé varin

03.02.2016 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV  -  RÚV Anton Brink
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að meira sé hagrætt í miðlægri stjórnsýslu borgarkerfisins en annars staðar. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðismanna, segir að þar sé hægt að gera betur og átelur meirihlutann fyrir slæm vinnubrögð í útfærslu hagræðingarinnar.

Borgarstjórn samþykkti í gær tillögur meirihlutans um hagræðingu upp á tæplega 1,8 milljarða króna. Minnihlutinn sat hjá. Alls nemur hagræðingin 1,6% af veltu borgarinnar.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir raunhæft að gera þetta án þess að það komi niður á grunnþjónustu. „Við erum að hagræða meira í því sem snýr að ráðhúsinu, miðlægri þjónustu og stoðþjónustu en því sem snýr að þjónustunni sjálfri. Það er til þess að standa vörð um grunnþjónustuna.“

Stjórnendur í leikskólum hafa reyndar efast um þetta og skilur Dagur áhyggjur þeirra. Hann hafi sjálfur fundað með þeim og nú sé verið að vinna með ábendingar þeirra.

Dagur segir að útfærslan sé komin býsna langt,  í sumum tilvikum þurfi að útfæra betur. Hagræðingin sé svipuð og nágrannaborgir á Norðurlöndum þurfi að fara í á hverju ári. Áhyggjurnar nú stafi af því að aðhaldsár sé afstaðið. „Við teljum að með því að taka vel á þessu á þessu ári séum við að búa í haginn fyrir framtíðina.“

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir jákvætt að meira sé skorið niður í miðlægri stjórnsýslu en í þjónustu. Hann telur þó að enn sé hægt að fækka stjórnendum í ráðhúsinu.

Hann segir að það vanti dýpri greiningu á hagræðingunni og telur að langt sé í land með að sumar tillögurnar geti orðið að veruleika. „Við eigum eftir að sjá hvernig þetta verður til dæmis varðandi skólamálin þar sem á að skera niður um 670 milljónir.“

Halldór deilir áhyggjum stjórnenda leikskóla af þjónustu og segir að minnihlutinn ætli að koma með tillögur til að verja grunnþjónustu ef ljóst þykir að hún þoli ekki hagræðinguna. „Við erum hins vegar alveg ótrúlega sein með þetta. Meirihlutinn er með þetta sem eina línu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 algjörlega óútfært og við gagnrýndum þetta harkalega. Svo erum við að vinna í útfærslunni núna þegar komið er fram á árið 2016. Það eru náttúrulega ekki góð vinnubrögð.“