Bónus telur dekkjabúð Costco „óásættanlega“

20.01.2016 - 07:56
Mynd með færslu
 Mynd: Ruv.is  -  Costco
Forstjóri Haga segir það óásættanlegt að Costco fái að setja dekkjaverslun nánast í anddyri Bónus. Búast má því að umferð um Kauptún í Garðabæ tvöfaldist með tilkomu bandarísku verslunarinnar Costco og bensínstöðvar. Þetta kemur fram í greinargerð verkfræðiskrifstofunnar Mannvits um mat á áhrifum aukins byggingarmagns í Kauptúni á umferð.

Greinargerðin var lögð fyrir bæjarráð Garðabæjar í gær. Þar leggur Mannvit til að gripið verði til mótvægisaðgerða, meðal annars akrein bætt við hringtorg til að koma í veg fyrir umferðartafir og biðraðir.

Á fundi bæjarráðs voru einnig lagðar fram athugasemdir annarra verslana við komu Costco. Hörðust er gagnrýnin frá Finni Árnasyni, forstjóra Haga, fyrir hönd Bónus sem er með verslun í Kauptúni 3 - þar sem Costco á að vera.

Finnur segir í athugasemdum sínum að Bónus sé einn af frumbyggjum Kauptúns - skipulagsvinnan hafi ekki tekið til þess að Bónus reki nú þegar matvöruverslun á svæðinu og ætli að gera það áfram. Hann telur með öllu óásættanlegt að Costco fái að setja eitt stærsta hjólbarðaverkstæði landsins nánast í anddyri Bónus - það fari ekki saman að reka matvöruverslun og dekkjaverkstæði í því samneyti sem skipulagstillagan geri ráð fyrir.

Hann segir að dekkjaverkstæði með tilheyrandi óþrifum og lykt eigi ekki heima í verslunarmiðstöð og hann áréttar þá hættu sem fylgir slíkri starfsemi fyrir starfsfólk og viðskiptavini Bónus.

Hann gerir einnig athugasemdir við að Costco ætli að byggja forhýsi við hlið Bónus - það sé með öllu óásættanlegt að reynt sé að fela Bónus með þessum hætti. Skipulagsnefnd Garðabæjar segir í svari sínu við þessar athugasemd að vilji sé til þess að koma til móts við Bónus - til dæmis með því að heimila skilti á lóðinni.

Costco stefnir á að opna vöruhús sitt á þessu ári. Verslunin ætlar einnig að reka bensínstöð sem verður sú stærsta á landinu