Boko Haram myrti tugi um helgina

14.02.2016 - 03:15
epa05149785 Nigerian women gather their belongings to depart the village of Mairi in the Konduga local government area of Borno State, North-East Nigeria following Boko Haram attacks over the weekend, Nigeria 08 February 2016. Three women and one man were
Þorpskonur í Mairi í Borno-héraði safna saman eigum sínum og búast til brottfarar. Morðsveitir Boko Haram réðust á þorpið 8. febrúar, myrtu fjóra og lögðu þorpið í rúst.  Mynd: EPA
Morðsveitir Boko Haram myrtu minnst þrjátíu manns í tveimur afskekktum smáþorpum í Norð-austur Nígeríu á föstudag og laugardag. Hópur manna vopnaðir hnífum og byssum ók inn í þorpin Yakshari og Kachifa á mótorhjólum og bílum, að sögn Mustafas Karimbe, sem tilheyrir vopnaðri sveit heimamanna sem lagt hefur stjórnarhernum lið í baráttunni gegn Boko Haram. Hann segir 22 hafa verið drepna í Yakshari og 8 í Kachifa.

Morðingjarnir  fóru jafnframt ránshendi um bæði þorpin, hirtu þar hvers kyns verðmæti og búpening. Karimbe telur að sami hópur vígamanna hafi verið að verki í báðum tilfellum.

Morðsveitir Boko Haram hafa drepið hundruð manna í og umhverfis héraðshöfuðborgina Maiduguri í Borno-héraði síðan Buhari Nígeríuforseti lýsti því yfir í desember, að stjórnarherinn hefði nokkurnveginn náð að ráða niðurlögum þessara illræmdu hryðjuverkasamtaka. Síðast á fimmtudag féllu nær 60 manns í tvöfaldri sjálfsmorðssprengjuárás í Dikwa-flóttamannabúðunum.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV