Boðuð nefnd var aldrei skipuð

28.02.2016 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós  -  RÚV
Landbúnaðarráðherra skipaði aldrei þverpólitíska nefnd sem ætlað var að fara yfir öll atriði búvörusamningsins eins og hann boðaði fyrir hálfu öðru ári. Allir flokkar voru beðnir um að tilnefna fulltrúa í nefndina sem var svo aldrei kölluð til fundar.

Samkeppniseftirlitið sektaði Mjólkursamsöluna um 370 milljónir króna í september 2014 fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Mikil umræða spannst af þessari ákvörðun um hvort og af hverju mjólkuriðnaðurinn væri undanþeginn samkeppnislögum.

Sigurður Ingi Jóhannsson landbúnaðarráðherra sagði í Morgunblaðinu í sömu viku og niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var kynnt að við undirbúning næstu búvörusamninga, það er að segja þá sem undirritaðir voru í síðustu viku, myndi Hagfræðistofnun Háskóla Íslands skila skýrslu um hvernig búvörusamningarnir hefðu reynst. Síðan segir Sigurður:

„Á grundvelli þeirra athugana sem þegar hafa verið gerðar mun ég leggja til stofnun þverpólitísks hóps af löggjafarþinginu sem fari yfir kerfið frá A til Ö."

Þingflokkarnir voru beðnir um að tilnefna fólk í þessa nefnd og tilnefndi Björt framtíð Guðmund Steingrímsson, Vinstri grænir tilnefndu Ögmund Jónasson, Samfylkingin Árna Pál Árnason og Sjálfstæðisflokkurinn Harald Benediktsson og Ragnheiði Ríkharðsdóttur. Ekki fengust upplýsingar um hverja Píratar og Framsóknarflokkurinn tilnefndi.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir vakti athygli á því í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að þessi nefnd hefði aldrei nokkurn tíma komið saman. 

Sigurður Ingi staðfesti í samtali við fréttastofu að ekki hefði komið til skipunar nefndarinnar. Það hefði ekki verið talið aðkallandi í ljósi þess að Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefði ógilt sekt Mjólkursamsölunnar. 

Sigurður segir að vel komi til greina að skipa þessa nefnd þegar að því kemur árið 2019 að endurskoða kvótakerfið í mjólkuriðnaðinum.

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV