Boða samvinnu í málefnum hælisleitenda

18.02.2016 - 14:06
epa05160351 Refugees walks to the transit and registration camp after they cross the border between Greece and Macedonia  near city of Gevegelia, The Former Yugoslav Republic of Macedonia on 14 February 2016. Thousand of refugees continue to pass through
Flóttafólk á landamærum Grikklands og Makedóníu.  Mynd: EPA
Yfirmenn lögreglu í fimm Evrópuríkjum gerðu í dag samkomulag um samvinnu við skrásetningu og upplýsingaöflun um flóttafólk og hælisleitendur á landamærum Grikklands og Makedóníu.

Lögregluforingjarnir, sem eru frá Austurríki, Króatíu, Makedóníu, Serbíu og Slóveníu, segjast einnig ætla að hafa samstarf við flutninga á hælisleitendum til Austurríkis og Þýskalands. 

Vlado Dominic, yfirmaður lögreglunnar í Króatíu, segir að þetta spari mikla fyrirhöfn. Í stað þess að hvert ríki fyrir sig safni upplýsingum og skrásetji fólk sé það gert á einum stað og fólk sem snúið sé við þurfi ekki að fara úr einu landi í annað.

Að sögn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna sendu yfirvöld í Króatíu 217 flóttamenn úr landi í gær, - frá Afganistan, Írak og Sýrlandi. Fólkið hafi verið sent til Serbíu þaðan sem það hefði komið, en ástæða brottvísunar þeirra sé ekki ljós.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV