BNA: Flotaforingi dæmdur fyrir mútuþægni

26.03.2016 - 07:20
epa05230181 A handout picture provided by the South Korean Navy on 25 March shows the missile-guided destroyer USS Fitzgerald engaging in a live-fire drill in waters off South Korea's western coast, 25 March 2016, as the South Korean and United
 Mynd: EPA  -  YNA / SOUTH KOREAN NAVY
Háttsettur bandarískur flotaforingi var í gær dæmdur í nærri fjögurra ára fangelsi fyrir mútuþægni. Flotaforinginn, Daniel Dusek að nafni, er hæst setti yfirmaðurinn til að hljóta dóm í viðamiklu mútumáli sem skekið hefur bandaríska flotann. Hann var sakfelldur fyrir að selja hernaðarleyndarmál til hergagnaframleiðanda í Singapore og beina viðskiptum flotans til ákveðinna hafna í Malasíu, svo eitthvað sé nefnt, í skiptum fyrir fé, dvöl á lúxushótelum, vændiskonur og fleira.

Fangelsisdómurinn var heldur lengri en saksóknarinn fór fram á, því dómarinn, Janis Sammartino, leit málið jafnvel alvarlegri augum en hann. sagði hún hreint ótrúlegt að svo háttsettur foringi í bandaríska flotanum skyldi lúta svo lágt að selja þau leyndarmál sem hann hefði selt, og þar með mögulega stefnt þjóðaröryggi í hættu, gegn slíkum launum. Auk fangelsisvistarinnar þarf Dusek að greiða samtals 100.000 bandaríkjadali í sekt og skaðabætur.

Dusek er einn tíu manna sem flæktir eru í mútumálið. Tveir lægra settir foringjar hafa þegar verið dæmdir, tveir hafa játað og bíða dóms, og enn á eftir að rétta yfir hinum fimm. Dusek hefur ýjað að því að enn hærra settir menn innan flotans séu flæktir í málið og að viðskipti flotans og Glenn Defense Marine Asia, hergagnaframleiðandans sem hann hyglaði með afskiptum sínum, séu jafnvel enn gruggugri en hingað til hefur verið ætlað. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV