Blom hafnað - Kling, Ára og Mæja fá grænt ljós

Innlent
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Blom hafnað - Kling, Ára og Mæja fá grænt ljós

Innlent
 · 
Menningarefni
16.03.2016 - 10:41.Freyr Gígja Gunnarsson
Hin umdeilda Mannanafnanefnd hefur samþykkt fimm nöfn og hafnað einu en nýir úrskurðir hennar voru birtir í dag. Nöfnin sem fengu grænt ljós voru Toddi, Baui, Ára, Kling og hið sígilda gælunafn Mæja. Þá var Ísbjört fært á mannanafnaskrá. Millinafninu Blom var hins vegar hafnað þar sem það telst ekki dregið af íslenskum orðstofnum og fullnægir því ekki skilyrðum laga um mannanöfn.

Mannanafnanefnd hefur á þessu ári tekið afstöðu til 17 nafna.   Í byrjun ársins hafnaði hún meðal annars nöfnunum Zoe og Danielu.

Von er á frumvarpi frá Ólöfu Nordal, innanríkisráðherra, þar sem til stendur að breyta lögum um mannanöfn. Sjálf hefur Ólöf sagt að hún vilji afnema mannanafnalög og talið að foreldrar eigi sjálfir að ákveða hvað börnin þeirra eigi að heita.