Björn: „Getum ekki stungið höfðinu í sandinn“

10.04.2017 - 11:27
Björn Bjarnason, formaður Varðbergs, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, segir að íslenskir stjórnmálamenn verði að auka þekkingu sína og ræða meira um stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum. Björn ræddi sviptingar í heimsmálunum á Morgunvaktinni á Rás 1.

Nú eru þrjú ár liðin frá því Rússar innlimuðu Krímskaga og segja má að sá atburður, 18.mars 2014, hafi táknað vatnaskil í samskiptum austur og vesturs. „Breytingarnar sem orðið hafa á þessum tíma eru með ólíkindum,“ sagði Björn Bjarnason á Morgunvaktinni. „Hvernig athyglin beinist æ meira að norðurslóðum.“ Fyrst voru það Eystrasaltsríkin, Svíar og Finnar sem átta sig á vaxandi hættu vegna vaxandi umsvifa Rússa, sem síðan beinist út á Norður-Atlantshafssvæðið. „Menn eru farnir að ræða um rússneska kafbáta, eins og menn gerðu í kalda stríðinu um sovésku kafbátana.“

Björn Bjarnason rifjaði upp að fyrir nokkrum vikum hefði aðstoðar framkvæmdastjóri NATO verið hér á ferð og minnt á að vettvangi sambandsins hefði í fyrsta skipti í langan tíma verið rætt um öryggismál á norðanverðu Atlantshafi. Og nú rúmum áratug eftir að Bandaríkjaher hvarf frá Íslandi er viðbúnaður hans og eftirlit að aukast hér við land að nýju vegna áhuga Rússa á norðurslóðum.

Eftir fall múrsins og Sovétríkjanna dofnaði áhugi á öryggismálum á Norður-Atlantshafi. Síðan færðust áherslur Bandaríkjanna og NATO-ríkja suður að Miðjarðarhafi og til Mið-Austurlanda. Nú er það Sýrland sem er vettvangurinn þar sem gamlir keppinautar á heimssviðinu mætast: Rússar og Bandaríkjamenn. Björn segir að það hafi verið tímamót þegar Trump hvarf frá yfirlýstri stefnu sinni og beitti hernaðarmætti Bandaríkjanna gegn stjórnarher Sýrlands – og ögraði þar með verndurum Sýrlandsstjórnar, Rússum. Þessi vaxandi spenna í Mið-Austurlöndum geti haft áhrif miklu víðar – alveg hingað á norðurslóðir.

„Hnattvæðingin nær ekki síður til hernaðar og öryggismálanna, heldur en viðskipta og pólitískra samskipta.“

Utanríkisráðherrar G7-ríkjanna hittast í dag og Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heldur síðan til Moskvu. Staðan er gjörbreytt eftir efnavopnaárásina í Sýrlandi og viðbrögð Bandaríkjanna, eldflaugaárásinni á herflugvöllinn. Nú mætast fulltrúar gömlu herveldanna og eftir er að sjá hver niðurstaðan verður, frekari átök í „staðgenglastríði,“ eða samningar, sem yrðu að fela í sér að Rússar láti af stuðningi við Assad, Sýrlandsforseta.

Mynd með færslu
 Mynd: -  -  Björn Bjarnason
Björn Bjarnason

Á sama tíma og Rússar tefla valdaskákina í Mið-Austurlöndum þenja þeir sig á norðurslóðum, með vaxandi auðlindavinnslu og meiri skipaumferð. Rússar ætla sér stóran hlut í gífurlegum auðlindum norðurskautsins. Þetta snertir okkur Íslendinga með beinum hætti. En eru Íslendingar of værukærir þegar kemur að öryggis- og varnarmálum? Björn Bjarnason svarar því játandi: „Ég tel að það sé óviðunandi að við búum við hættumat fyrir Ísland frá árinu 2009, og það sé nauðsynlegt að fara yfir þetta og gera nýtt allsherjar hættumat fyrir Ísland. Virkja verður sem flesta í því ferli. Það er búið að setja á laggir þjóðaröryggisráð og forsætisráðherra hefur fengið sérstakt hlutverk og sömuleiðis ráðuneytin. En umræðan er sáralítil. Ég held að stjórnmálamenn hafi hlaupið yfir hana, þennan kafla í stjórnmálastarfinu.“

Björn Bjarnason segir að stjórnmálamenn verði að hafa þekkingu á öryggis- og varnarmálum og vera tilbúnir til að taka þátt í umræðum um þau. „Við þurfum að huga að því að skipuleggja okkar Landhelgisgæslu, lögreglu og allar þessar stofnanir, og sérstaklega landamæraeftirlitið. Við þurfum að leggja meiri áherslu á landamæraeftirlitið. Við höfum einstakt tækifæri vegna þess að 95% fara í gegn á sama staðnum á landinu. Fylgjast með því hverjir eru að koma til landsins og gera það á skipulegan hátt með nægum mannafla og nota bestu tæki.“

„Ég held að umræður um þessi mál séu nauðsynlegar. Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og haldið að þetta fari framhjá okkur – án þess að við þurfum að hafa einhverja skoðun á því.“

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi