Björk vinnur Brit - myndskeið

24.02.2016 - 22:33
Björk var í kvöld valin besta alþjóðlega söngkonan á Brit-verðlaunahátíðinni - þetta eru fimmtu Brit-verðlaun íslensku söngkonunnar. „Takk kærlega, mínir mjög svo vinalegu Bretar, fyrir bestu verðlaun allra tíma. Ég ætla að njóta þess að vera besta alþjóðlega söngkonan í heilt ár.“

Íslenska söngkonan hefur fengið mikið lof fyrir plötuna sína Vulnicura þar sem hún gerir upp erfiðan skilnað sinn og listamannsins Matthew Barney. Björk hætti meðal annars við að koma fram á Iceland Airwaves og sagði í yfirlýsingu að það hefði tekið á að flytja lög af plötunni.

Brit-hátíðin í kvöld fór fram í O2 höllinni í Lundúnum að viðstöddum öllum helstu poppstjörnum heims - meðal þeirra sem komu fram á hátíðinni í kvöld voru Justin Bieber, Adele og Coldplay.

Adele stjarna kvöldsins

Breska söngkonan Adele var ótvíræð ofurstjarna kvöldsins. Hún uppskar fern Brit-verðlaun, var valin kvenstjarna ársins, plata hennar, 25, var valin plata ársins, Hello var valið lag eða smáskífa ársins og loks var hún verðlaunuð sem sá breski listamaður sem bestum árangri náði á heimsvísu.

James Bay var kjörinn karlstjarna ársins, Justin Bieber var karlkyns útgáfa Bjarkar, það er að segja besti, alþjóðlegi sólólisti ársins, Coldplay var valin besta breska bandið en Tame Impala besta sveitin á heimsvísu. 

 

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV