Bjarni: „Spjótin beindust að forsætisráðherra“

05.04.2016 - 20:39
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að munurinn á sínu máli og máli forsætisráðherra vera að félagið Wintris sé enn til í dag, það sé með einhverjar eignir og starfsemi og hafi lýst kröfum í þrotabú föllnu bankanna. Hans félag, Falson & Co sé dautt, það hafi verið stofnað um mjög einföld viðskipti sem síðar hafi gengið til baka. Honum þykir miður ef Alþingi kemst að þeirri niðurstöðu að hann hefði átt að skrá það í hagsmunaskrá sína í nokkra mánuði árið 2009.

Nokkuð var saumað að Bjarna í Kastljósi í kvöld vegna tengsla hans við aflandsfélagið Falson & Co sem skráð var á Seychelles-eyjum. Fjallað var um félagið í sérstökum þætti sem tileinkaður var Panamaskjölunum á sunnudag. Þar kom meðal annars fram að félagið hefði ekki verið afskráð fyrr en árið 2012 og að starfsemi hefði verið í því fram í október 2009.

Bjarni sagðist vona að afsögn forsætisráðherra væri nóg til að lægja öldurnar. Ekki mætti gera lítið úr því skrefi sem stigið var í dag og þetta væru skýr og mikil viðbrögð við þessu ákalli.  „Spjótin beindust að forsætisráðherra.“

Bjarni benti á að það væri tiltölulega skammt til kosninga og það væri mat þeirra að það væri slík verkefni á borði ríkisstjórnarinnar að nauðsynlegt væri að klára þau áður en kosið yrði. „Eitt af því sem við Sigurður Ingi Jóhannsson ætlum að ræða í samtali okkar er hvort tilefni sé til að flýta kosningunum.“

Bjarni var síðan spurður út í félagið Falson & Co og hvort honum væri treystandi til að vera áfram fjármálaráðherra. Bjarni fullyrti að þetta væri frekar einfalt mál - hann hefði millifært einu sinni fyrir fasteign og tekið við peningum einu sinni.  Hann sagði sitt mál ekki gott dæmi um þingmann sem væri að leyna hagsmunum. „Ég hef ekkert að fela,“ sagði Bjarni.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Kastljós