Bjarni: Hefur varla áhrif á dómsmál kröfuhafa

12.03.2017 - 16:38
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segist ekki sjá fyrir sér að afnám gjaldheyrishafta hafi áhrif á dómsmál sem kröfuhafar standi í gagnvart íslenska ríkinu. Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, vonar að afnámið leiði til lægri vaxta. Már Guðmundsson seðlabankastjóri fer yfir það í hverju afnám hafta er fólgið og hvaða áhrif það getur haft á almenning og fyrirtækin í landinu. Þetta kemur fram í ítarlegum viðtölum Jóhanns Bjarna Kolbeinssonar við þremnningana.

„Það hefur verið látið reyna á margt af því sem við höfum gert samkvæmt þessari aðgerðaáætlun, bæði hér heima fyrir og erlendis, og íslensk stjórnvöld hafa haft sigur í öllum ágreiningsmálum sem hafa vaknað,“ segir Bjarni um dómsmálin. „Kjósi menn að taka ekki þátt í þessum viðskiptum á þessum tímapunkti verða þeir áfram í því umhverfi sem aflandskrónum hefur verið búið,“ segir Bjarni um stöðu þeirra aflandskröfueigenda sem höfnuðu bæði þátttöku í útboði stjórnvalda í fyrra vegna snjóhengjunnar og samningunum nú. Hann vísar þar til þess að aflandskrónueignir eru vistaðar á reikningum sem bera ekki vexti.

„Síðast þegar við léttum höftin sáum við ekki eins mikið útflæði og ég hafði sjálfur gert ráð fyrir,“ segir Bjarni um gengisþróun krónunnar. Hann segist samt vona að með þetta sterkri krónu fari lífeyrissjóðirnir í auknum mæli að horfa út fyrir landsteinanna með fjárfestingar sínar.

„Ég vonast til þess að það verði lát á þessari styrkingu krónunnar sem greinilega er farin að koma mjög alvarlega við útflutningsgreinarnar,“ segir Bjarni og kveður sameiginlega hagsmuni landsmanna að útflutningsatvinnuvegirnir standi sterkt hverju sinni. Þeir þurfi að vera leiðandi í kjaramyndun í landinu.

Mikill gleðidagur

Þetta er mikill gleðidagur vegna þess að nú er Ísland algjörlega haftalaust,“ segir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra. Hann segir að þetta skipti kannski ekki miklu máli í daglegu lífi fólks en geti vonandi leitt til betra lánshæfismats og lægri vaxta. Hann segir erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif afnám hafta hafi á gengi krónunnar. Hann segir styrkingu krónunnar ekki hafa verið útflutningsfyrirtækjum til góðs.

„Það er ekki búið samkvæmt alþjóðlegum stöðlum að afnema þau eða losa algjörlega. Það gerist ekki fyrr en aflandskrónumengið hverfur og það er líka hægt að eiga afleiðuviðskipti í spákaupmennskuskyni en í raun gagnvart heimilum, fyrirtækjum og lífeyrissjóðum þá eru höftin farin,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri. Hann fer í viðtalinu yfir það í hverju afnám haftanna sé fólgið og hvaða áhrif það getur haft á líf almennings og starfsemi fyrirtækja.